

Heimska -u KVK
• það að vera heimskur, vitsmunaskortur
Orðið úr Orðabanka Birtu þessa vikuna er ættað úr germönsku. Flestir nota það yfir fólk sem skortir vitsmuni en á vísindavefnum svarar próf. Guðrún Kvaran spurningunni um uppruna orðsins með eftirfarandi hætti:
Orðið heimskur ‛vitgrannur, fávís’ er náskylt orðunum heim ‛(í átt) til heimkynna’ og heima ‛heimkynni, heimili’ og ‛í heimkynnum sínum’. Orðið heimskur þekkist allt frá fornu máli. Ekki þótti það karlmannlegt að sitja alltaf heima og fara ekkert.
Í Hávamálum stendur (5. erindi):
Vits er þörf
þeim er víða ratar
dælt er heima hvað.
Dælt merkir þarna ‛auðvelt’, það er auðvelt að halda sig heima en vit er nauðsynlegt ef fara á víða. Heimskur er þá upphaflega sá sem heldur sig heima við og aflar sér ekki þekkingar á ferðum.
Íslensk orðsifjabók lýsir orðinu heimska svona:
heimskur l. ‘vitgrannur, fávís’; sbr. sæ. máll. hemmsk ‘hræddur, huglítill’, fd. hemsk (s.m.), sbr. nno. heimen ‘einfaldur’; eiginlega ‘heima alinn > reynslulítill’. Sbr. fhþ. heimisc, nhþ. heimisch ‘sem heyrir til heimkynnunum, innlendur.
SAMHEITI
andhælisskapur, asnaskapur, aulaháttur, aulaskapur, axarskaft, álfaskapur, bjálfaskapur, bjánaskapur, dáraskapur, einfeldni, fábjánaháttur, fábjánaskapur, fáráðlingsháttur, fáráðlingsskapur, fásinna, fáviska, fávísi, fíflska, fíflskapur, fjarstæða, flónsháttur, flónska, flónskupör, fólska, gáfnaskortur, glappaskot, glópska, grunnhyggni, græningjaháttur, grænka, hálfvitaháttur, hálfvitaskapur, heimskupör, hyggjuleysi, kjánaskapur, nautska, óhyggni, ókænska, óráð, óskynsemi, ósnilli, óviska, óviturleiki, rataskapur, ráðleysi, sálarþynnka, skynsemdarleysi, vanhyggja, vanviska, vanvit, vitgrenni, vitleysa, vitsmunaskortur, þynnka
skynsemi