

Sólheimar þurfa að greiða 38,2 milljónir í skaðabætur til smiðs sem varð fyrir varanlegu tjóni þegar hann tók að sér verkefni fyrir sjálfbæra samfélagið árið 2015. Tjónið mátti rekja til myglu á vinnustaðnum. Þetta var niðurstaða í máli sem smiðurinn höfðaði gegn Sólheimum, en dómur féll þann 18. desember sl.
Það var á tímabilinu 1. september til 15. október árið 2015 sem smiðurinn var að störfum hjá Sólheimum. Hann var ráðinn tímabundið í 80 prósent starfshlutfall og átti að sinna ýmsum verkefnum. Föstudaginn 16. október fór smiðurinn í helgafrí og fann þá fyrir óþægindum í öndunarfærum. Óþægindin áttu eftir að versna og í framhaldinu greindist hann með þindarlömun sem var rakin til myglu á vinnustaðnum. Smiðurinn var þá 43 ára gamall.
Samkvæmt matsgerð sem fór fram fimm árum síðar, árið 2020, gat smiðurinn ekki sinnt líkamlega erfiðri vinnu og var líkamlegt þrek hans til starfa almennt til framtíðar verulega skert vegna afleiðinga líkamstjónsins. Varanlegur miski var matinn 50 stig og varanleg örorka 60%.
Smiðurinn var menntaður í fagi sínu og hafði starfað við smíðar frá 18 ára aldri. Eftir starfið hjá Sólheimum gat hann ekki lengur starfað við iðn sína og þurfti að snúa sér að öðru. Hann reyndi að taka að sér störf á öðrum sviðum en reyndist þó ekki hafa þrek til þess og í dag er hann á örorkulífeyri.
Sólheimar höfðu áður greitt smiðnum um 18,3 milljónir en smiðurinn taldi það ekki bæta tjón hans að fullu. Sólheimar byggðu útreikning sinn á meðalatvinnutekjum smiðsins síðustu þrjú almanaksárin fyrir tjónsdag, en smiðurinn vildi meina að tekjurnar gæfu ekki rétta mynd af tjóninu enda hefði hann í aðdraganda tjónsins enn verið að ná sér eftir að hafa farið í gjaldþrot í kjölfar hrunsins. Hann sé menntaður húsasmiður og bæri því að leggja til viðmiðunar meðallaun húsasmiða en til vara vildi hann að miðað væri við meðallaun verkafólks í húsabyggingum eða við árslaun verkafólks.
Dómari tók fram að áður en smiðurinn tók að sér vinnuna fyrir Sólheima hafði hann þegið atvinnuleysisbætur nokkurn tíma og auk þess verið tekjulaus í um hálft ár. Hann átti sér langa sögu á vinnumarkaði og væri rétt að virða hana heildstætt við mat á því hvort að meðallaun hans á viðmiðunartíma skaðabótanna gæfu ranga mynd af stöðu hans. Smiðurinn hafði frá því að hann lauk námi starfaði bæði sem launamaður og í eigin rekstri. Eftir hrunið 2008 hafi nýbyggingarframkvæmdir lagst af og erfitt gat verið að fá starf við smíðar allt fram til ársins 2015, en þá fór að rofa til. Aðstæður smiðsins hafi á viðmiðunartímabili einkennst af atvinnuleysi og takmörkuðum atvinnutækifærum og slíkar aðstæður taldi dómari óvenjulegar í skilningi skaðabótalaga.
Taldi dómari ekki vera efni til annars en að leggja til grundvallar að húsasmíðar hefðu verið áframhaldandi vinna smiðsins hefði hann ekki lent í tjóninu. Því væri rétt að meta fjárhæð skaðabóta út frá tekjum iðnlærðra húsasmiða.
Niðurstaðan varð því að Sólheimar eiga að greiða smiðinum 38,2 milljónir að frádreginni þeirri 18,3 milljóna innborgun sem þegar hefur átt sér stað.
Dóminn má lesa hér, en áður hafði bótakrafa smiðsins verið viðurkennd fyrir Landsrétti í dómi sem féll í júní á síðasta ári. Þar var talið sannað að mygla hefði verið á vinnusvæðinu þar sem smiðurinn gegndi störfum, þar með talinn aspergillus-sveppur sem er sá myglusveppur sem getur leitt til alvarlegra heilsufarsvandamála. Smiðurinn hafi verið látinn vinna við niðurrif í mygluðu húsnæði án viðeigandi hlífðargrímu og þegar hann kenndi sér meins leitaði hann strax til læknis sem tengdi heilsufarsvandann strax við vinnu í myglusýktu umhverfi. Menn þurfi ekki að starfa lengi í myglusýktu umhverfi til að verða fyrir tjóni. Landsréttur taldi þó rétt að skerða bætur til smiðsins um þriðjung þar sem hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi að vinna án hlífðargrímu þrátt fyrir að hafa verið meðvitaður um þörfina til slíks. .