
Á jóladag hóf DV upprifjun á þeim stjórnsýsluúrskurðum sem vöktu einna mesta athygli á árinu og nú verður birtur seinni hluti umfjöllunarinnar en þar koma meðal annars við sögu vantrú Skattsins á að kona væri heimavinnandi húsmóðir, fasteignasali sem stóð sig ekki í stykkinu þegar kom að myglu, þvottavél sem fékkst ekki keypt á kostakjörum og flug sem bókað var í vitlausa átt.
Úrskurðir ársins I: Varasamur læknir, ólögleg aflífun og „gallaður“ hundur
Í júní greindi DV frá niðurstöðu yfirskattanefndar um endurálagningu opinberra gjalda konu sem gaf upp litlar sem engar tekjur og skýrði það með því að hún væri heimavinnandi húsmóðir og að fjölskyldan lifði á tekjum manns hennar, en þau eiga tvö börn. Skatturinn tók það ekki trúanlegt þar sem tekjur mannsins væru of lágar til að framfleyta fjölskyldunni og nefndin tók undir það. Vakti málið töluverð viðbrögð lesenda.
Skatturinn trúði því ekki að heimavinnandi húsmóðir hafi verið tekjulaus
Rannsóknarstofan Sameind hlaut töluverða gagnrýni í september fyrir að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, um leyfi til að innrétta húsnæði að Ármúla 34 fyrir starfsemi Konukots, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Rannsóknarstofan sem er staðsett í húsinu við hliðina, Ármúla 32, hafði áður mótmælt áformunum en í kærunni kom meðal annars fram að starfsemi Sameindar og Konukots gæti á engan hátt farið fram í svo miklu návígi. Vildi Sameind meina að aðstæður gætu skapast á stöðum eins og Konukoti sem gætu verið lífshættulegar fyrir suma sjúklinga sem komi á rannsóknarstofuna.
Segja það geta verið lífshættulegt að hafa Konukot í Ármúla 34
Nefndin varð á endanum ekki við kröfu Sameindar um að fella byggingarleyfið úr gildi og því ekki annað í spilunum en að Konukot tæki til starfa í húsnæðinu.
Úrskurður kærunefndar – og þjónustukaupa í nóvember vakti nokkra eftirtekt meðal lesenda DV. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að fasteignasala bæri að að greiða kaupanda kostnað vegna viðgerðar á einu herbergja eignar sem hann keypti fyrir milligöngu fasteignasalans en vegna leka í glugga hafði mygla myndast í herberginu. Sagði nefndin ljóst að fasteignasalinn hefði vanrækt þær skyldur sem hann hafði gagnvart kaupandanum, samkvæmt lögum um sölu fasteigna.
Úrskurður kærunefndar vöru- og þjónustukaupa frá í október vakti töluverða umræðu meðal lesenda DV og sýndist sitt hverjum. Nefndin hafnaði kröfu konu um að ónefndu fyrirtæki yrði gert að efna samning þeirra á milli. Konan hafði keypt uppþvottavél, í vefverslun fyrirtækisins, á um 10.000 krónur. Fyrirtækið vildi ekki standa við söluna og vísaði til þess að mistök hefðu verið gerð við skráningu verðsins á uppþvottavélinni og það hefði átt að vera konunni augljóst. Bauð það konunni aðra uppþvottavél með afslætti en hún hafnaði boðinu og krafðist þess að fá uppþvottavélina sem hún keypti og á því verði sem hún greiddi fyrir hana.
Í október komst kærunefnd vöru- og þjónustukaupa einnig að niðurstöðu í öðru athyglisverðu máli.
Nefndin hafnaði þá kröfu manns um endurgreiðslu á flugmiða sem hann keypti og greiddi fyrir á síðasta ári. Hafði maðurinn keypt miða frá öðru landi til Íslands en ætlaði sér hins vegar að kaupa miða hina leiðina, þ.e.a.s. frá Íslandi til þessa ónefnda lands.