
Los Angeles Times greinir frá þessu.
Zampella átti stóran þátt í að móta landslag nútíma tölvuleikja. Árið 2002 stofnaði hann, ásamt öðrum, fyrirtækið Infinity Ward sem framleiddi fyrsta Call of Duty-skotleikinn sem kom út árið 2003.
Call of Duty-leikirnir hafa notið mikilla vinsælda á síðustu 20 árum og má segja að serían hafi rutt brautina fyrir aðra sambærilega skotleiki.
Zampella hvarf frá verkefninu árið 2010 eftir ágreining við útgefandann Activision sem keypti Infinity Ward. Í kjölfarið stofnaði hann, ásamt meðstofnandanum Jason West, fyrirtækið Respawn Entertainment.
Undir forystu Zampella þróaði Respawn Titanfall-seríuna, battle royale-leikinn Apex Legends, og leikina Star Wars Jedi: Fallen Order og Star Wars Jedi: Survivor. Respawn þróaði einnig Medal of Honor: Above and Beyond.
Samkvæmt lögreglu létust tveir í slysinu á sunnudag, Zampella og farþegi í bíl hans. Virðist hann hafa misst stjórn á Ferrari-bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún endaði á steinsteyptum vegg og eldur kviknaði. Óvíst er hvað olli slysinu en ekki er útilokað að hraðakstur hafi átt þátt í því.