

Lovísa Ösp Ögmundsdóttir, sjö ára, á stórleik í nýjum auglýsingum fyrir Bónus. Þegar eru komnar út tvær og sú þriðja handan við hornið. Í auglýsingunum má sjá Lovísu Ösp ráðleggja foreldrum sínum við innkaup og heimilisbókhaldið.
Í fyrstu auglýsingunni bregður hún sér í hlutverk bókarans og boðar foreldra sína á mikilvægan fjölskyldufund inni í herberginu sínu. Á fundinum tuskar hún foreldra sína til og brýnir fyrir þeim að þau séu búin að vera að eyða allt of miklu án þess að gera sér grein fyrir því og að eina ráðið til að bjarga ástandinu á heimilinu og spara fyrir hennar framtíð sé að versla í Bónus.
Sjá einnig: Tekur foreldrana á teppið í nýrri sjónvarpsauglýsingu Bónus
Önnur auglýsingin kom út núna um helgina og þar er komið að föðurnum einum, sem er nýkominn úr búðinni. Lovísa Ösp fer vandlega yfir innkaupin og strimilinn og hrósar loks föðurnum fyrir sparnaðinn og að vegna þess komist fjölskyldan nú í glæsilegt frí.
Auglýsingarnar voru teknar upp í fjölbýlishúsi í miðbæ Garðarbæjar og hér má sjá auglýsinguna og nokkrar myndir sem teknar voru bak við tjöldin.
