

Myndband náðist af ferðamönnum kasta steinum í seli á strönd við Snæfellsnes. Myndbandið hefur vakið hneykslun fólks og sagt er að athæfið sé bæði óviðeigandi og skrýtið.
Myndband sem tekið var á Ytri-Tungu á Snæfellsnesi fyrr í haust var birt á samfélagsmiðlinum Reddit, það er í spjallhópi erlendra ferðamanna á Íslandi. Sagt er að ferðamennirnir séu kínverskir.
„Við erum með númeraplötuna af bílaleigubílnum þeirra. Er hægt að tilkynna þetta einhvers staðar?“ spyr sá sem tók myndbandið og er augljóslega reiður og hneykslaður á athæfinu.
En í myndbandinu sjást ferðamennirnir kasta steinum af ströndinni út í átt að selum sem svamla um þar nálægt.
Tvær selategundir kæpa við Ísland, landselir og útselir. Ekki er vitað hvor tegundin varð fyrir grjótkasti ferðamannanna, en báðar tegundir hafa átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum og fækkað mikið í stofnunum.
Sá sem tók myndbandið segir að ferðamennirnir hafi verið í nokkuð stórum hópi. Segist hann hafa verið í losti yfir þessu og harmar að hafa ekki reynt að gera eitthvað til að sporna við þessu.
„Við tókum upp í um það bil eina mínútu og fórum svo nær. Þeir sáu okkur taka upp og stara reiðilega á þá. Þá fóru þeir upp á bílastæði. Þannig að þeir héldu þessu ekki áfram,“ segir hann.
Margir lýsa mikilli reiði á þræðinum yfir þessu og hneykslun á að einhver skuli beita varnarlaus dýr ofbeldi og vanvirðingu. Einnig lýsa sumir hneykslun sinni á því að sá sem tók myndbandið hafi ekki stigið fastar inn í. Er orðalagið slíkt að stjórnendur hópsins hafa læst athugasemdakerfinu.
„Ég hefði beitt ofbeldi í þessum aðstæðum,“ segir einn og á þá við að hann hefði beinlínis ráðist á ferðamennina. Fleiri taka undir þetta. „Ég hefði kannski ekki kastað stórum hnullungum í ferðamennina en ég hefði klárlega kastað handfylli af smásteinum í þá. Drullusokkar,“ segir annar.
„Svo skrýtið að gera þetta,“ segir enn annar.
Er sá sem tók myndbandið og náði bílnúmerinu hvattur til þess að hringja í 112 út af þessu og senda yfirvöldum myndbandið.