fbpx
Sunnudagur 21.desember 2025
Fréttir

Læknar höfðu verulegar áhyggjur af hjónunum í Súlunesi eftir ítrekuð blómkálseyru og ótrúverðugar skýringar en gátu ekkert gert

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. desember 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heilbrigðisráðherra hyggst nú skýra það hvenær heilbrigðisstarfsmenn eru undanþegnir þagnarskyldu, en þagnarskylda heilbrigðisstarfsfólks hefur verið til mikillar umræðu eftir að dómur féll í Súlunesmálinu í vikunni. Þar kom fram að foreldrar Margrétar Höllu Löf höfðu ítrekað leitað til lækna vegna afleiðinga ofbeldisins, seinast um nokkrum dögum áður en Margrét réðst á foreldra sína með þeim afleiðingum að faðir hennar, Hans Roland Löf, lét lífið.

Ítrekaðar læknisheimsóknir hjónanna eru raktar í dómi Héraðsdóms Reykjaness. Þar má sjá að læknar töldu sig vita að hjónin væru beitt ofbeldi, en gátu þeir þó lítið gert annað en að hvetja þau til að leita sér aðstoðar.

Formaður Læknafélagsins hefur kallað eftir því að þagnarskyldan verði skýrð frekar, sérstaklega með tilliti til fólks í viðkvæmri stöðu. Samkvæmt lögum má rjúfa þagnarskyldu í vissum tilvikum en ákvæðin þar um þykja loðin. Til dæmis er tekið fram með heimilisofbeldi að tilkynna megi það til lögreglu að beiðni sjúklings. Ef sjúklingur er mótfallinn því geta læknar þó ekkert gert og eiga þolendur heimilisofbeldis oft erfitt með að kalla eftir slíkri aðstoð.

Þetta birtist skýrt í Súlunesmálinu en foreldrar Margrétar voru tregir við að opna sig um ofbeldið og vildu alls ekki tilkynna það til lögreglu.

Áhyggjur vakna

Móðir Margrétar leitaði á bráðamóttöku þann 22. febrúar á þessu ári. Hún var þá með blæðingu í vinstra eyra. Hún útskýrði fyrir lækninum að hún hefði fengið skott af bíl í andlitið nokkrum dögum áður. Læknirinn sagðist hafa trúað þessu enda hafði hann ekki ástæðu til annars. Hún var sömuleiðis töluvert marin á vinstri hlið andlits.

Áverkinn á eyranu virtist gróa illa og móðirin sneri aftur til læknis 24. og 27. febrúar og svo einnig dagana 3., 5., 13. og 17. mars. Í hvert skiptið þurfti að tæma mismikið blóð úr eyranum og búa um það.

Hún leitaði á göngudeild háls-, nef- og eyrnalækninga þann 21. mars og var þá með mikla blæðingu í eyranu. Þá sagði hún að stóðhestur hefði sveiflað höfði sínu í höfuð hennar og hún við það rekið eyrað í grindverk. Hún var einnig marin í kringum hægra auga. Þarna var læknirinn orðinn áhyggjufullur og taldi áverkana geta verið ofbeldistengda, sérstaklega þar sem eiginmaður hennar, Hans Roland Löf, mætti með konu sinni á bráðamóttökuna með sama vandamál. Ræddi læknirinn þetta opinskátt við móðurina en hún þrætti fyrir að hafa sætt ofbeldi.

Hún sneri svo aftur tveimur dögum síðar til að láta búa um sárið. Þar var aftur rætt við móðurina um mögulegt ofbeldi en hún hafnaði öllu slíku.

Næst mætti hún á bráðamóttökuna þann 11. apríl. Þá var hún í miklu uppnámi og sagði dóttur sína hafa veist að þeim hjónum og hafi ofbeldið staðið alla nóttina, allt þar til Hans „lyppaðist niður“. Móðirin var sjálf með brotið nef, opið sár á eyra, mar á augnsvæði og hálsi, útbreidda áverka á bol, marga yfirborðsáverka á handleggjum og fótleggjum og opið sár á fótlegg. Áverkarnir þóttust samrýmast mjög vel endurteknu, langvarandi og alvarlegu ofbeldi.

Blómkálseyra báðum megin

Hans Roland Löf var með slæmt hné og hafði verið í eftirliti hjá bæklunarlækni og m.a. notast við spelku. Þann 21. janúar fór hann í skoðun á göngudeild Landspítalans og hafði þá tapað nokkurri færni í hnjám og var mjög verkjaður. Sagðist hann þó frekar vilja prófa spelkur áfram áður en hann gengist undir aðgerð.

11. febrúar leitaði hann svo á bráðamóttöku vegna óhapps í heimahúsi. Sagðist hann hafa lent í árekstri við hlut á hreyfingu og fengið högg á hægra eyra. Við það hafi hné hans gefið sig, hann misst jafnvægi, gripið í hillu og þá óvart fengið iðnaðarbúnað yfir sig. Hans Roland var þarna, líkt og eiginkona hans, með blómkálseyra en tveir læknar tóku fram fyrir dómi að slíkir áverkar séu sjaldgæfir og sjást oftast hjá fólki sem er að keppa í bardagaíþróttum. Hann sneri aftur 13., 14., 15., 16., 17., 18. og 21. febrúar því illa gekk að fá eyrað til að gróa og þurfti ítrekað að tappa af því, opna sárið og sauma svo fyrir það aftur. Þann 4. mars sneri hann aftur enn einu sinni og virtist sárið þá hafa gróið en brjósk í eyra hafði þó aflagast til frambúðar.

Næst kom Hans Roland á sjúkrahús þann 21. mars, aftur vegna blæðingar í vinstra eyra. Hann sagðist hafa verið nokkru áður uppi í hesthúsi þar sem hestur slengdi höfði sínu í hann. Var hann einnig með glóðarauga í kringum vinstra augað og var augað jafnframt blóðslegið. Nú var hann kominn með blómkálseyra á hitt eyrað og læknirinn skrifaði í nóturnar sínar að hann hefði áhyggjur af hugsanlegu ofbeldi.

Opnaði sig um ofbeldið

Þann 23. mars ákvað læknirinn að ræða við Hans um meint ofbeldi. Skrifaði læknirinn hjá sér að Hans hafi verið hikandi af ótta við að það spyrðist út. Svo brotnaði hann saman og grét. Engu að síður vildi hann ekki tjá sig um áverkana því það gæti komið sér illa fyrir aðra. Læknirinn skrifaði hjá sér að hann hefði verulegar áhyggjur og hafði ráðfært sig við sérfræðinga „vegna máls hans og eiginkonu hans sem á við sama vandamál og ekki grundvöllur fyrir okkur að stíga inn í.“

Hans sneri aftur 25. mars í eftirlit og reyndi læknir þá árangurslaust að ræða við hann um tilurð áverkans.

Næstu læknaheimsóknir voru 4., 5. og 6. apríl. Þann 4. apríl leitaði Hans á göngudeild háls, – nef og eyrnalækninga vegna blæðinga í vinstra eyra. Var hann með dreifða áverka yfir andlit, mar á kinnbeinum, mar á gagnauga og hrufl á höku. Játaði Hans þá að aðili sér nákominn hefði veitt honum þessa áverka. Hann vildi þó ekki segja hver það væri en tók fram að fjölskyldan hefði leitað til fjölskylduráðgjafa. Hans var hvattur til að tilkynna árásir til lögreglu, fara á bráðamóttöku og láta skrásetja alla áverka og óska eftir viðtali við félagsráðgjafa.

Hans leitaði svo á bráðamóttöku degi síðar vegna marbletta á andliti og handleggjum sem hann rakti til vandamála í hnjám; þau gæfu eftir og hann því ítrekað dottið og meitt sig. Þarna voru læknar komnir með verulegar áhyggjur og þóttu nær öruggt að Hans væri beittur ofbeldi. Var hann lagður inn á sjúkrahús yfir nótt í öryggisskyni. Morguninn eftir ræddi félagsráðgjafi við hann. Þar opnaði hann sig um ofbeldið en nafngreindi ekki dóttur sína heldur talaði um „persónu“. Þessi persóna hefði æft bardagaíþróttir og kenndi Hans og konu hans um allt sem miður færi í hennar lífi. Hún glímdi við reiðivandamál og eigi til með að kýla hjónin. Hans var hvattur til að tilkynna málið til lögreglu en vildi það ekki.

Hans kom svo aftur á bráðamóttökuna að morgni 11. apríl og lést á þriðja tímanum, um korteri eftir að lífslokameðferð hófst. Eiginkona hans og sonur voru með honum á dánarstund.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Allir íbúar sem þurftu að yfirgefa Grindavík geti kosið þar

Allir íbúar sem þurftu að yfirgefa Grindavík geti kosið þar
Fréttir
Í gær

Allt vitlaust út af yfirstrikunum í Epstein-skjölunum – Birtingin gæti komið Trump í enn meiri vanda

Allt vitlaust út af yfirstrikunum í Epstein-skjölunum – Birtingin gæti komið Trump í enn meiri vanda
Fréttir
Í gær

Hafliði hvetur fólk til að hafa þetta í huga þegar það kaupir í matinn fyrir jólin

Hafliði hvetur fólk til að hafa þetta í huga þegar það kaupir í matinn fyrir jólin
Fréttir
Í gær

Líkamsárás í Kópavogi – Nefbraut konu

Líkamsárás í Kópavogi – Nefbraut konu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján Sívarsson fær ekki að áfrýja til Hæstaréttar – Olli höfuðkúpubroti konu

Kristján Sívarsson fær ekki að áfrýja til Hæstaréttar – Olli höfuðkúpubroti konu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Verðkönnun á jólabókum: Þarna finnurðu oftast lægsta verðið

Verðkönnun á jólabókum: Þarna finnurðu oftast lægsta verðið