fbpx
Sunnudagur 21.desember 2025
Fréttir

Keyptu splunkunýtt parhús sem reyndist svo verulega gallað – Leki og mygla komu upp fljótlega eftir afhendingu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 21. desember 2025 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvö pör duttu heldur betur í ólukkupottinn þegar þau festu kaup á sitt hvorum hluta parhúss árið 2022. Parhúsið reyndist nefnilega meingallað, þrátt fyrir að vera glænýtt. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll nú í desember þar sem kaupendum voru dæmdar bætur. Báðar eignirnar voru seldar á byggingarstigi 5 (tilbúnar til innréttingar).

Mygla og leki

Eftir að eignirnar voru afhentar töldu kaupendur að fram hefðu komið ýmsir ágallar sem nauðsynlegt væri að bæta úr. Verkfræðistofunni Verkís var falið að gera ástandsskoðun á frágangi á þakklæðingu og utanhússklæðningu fasteignanna og kanna vinnubrögð byggingaraðila við þessa verkþætti. Niðurstaðan var sú að þakklæðning og álklæðning utanhúss væru haldnar verulegum ágöllum sem ekki yrði bætt úr öðruvísi en að skipta út allri klæðningunni.

Því er lýst í dómi héraðsdóms að fljótlega eftir afhendingu hafi komið upp leki í annarri eigninni og í framhaldinu greindist þar mygla. EFLA var fengin til að meta aðstæður og benti m.a. á að utanhússklæðning væri sums staðar ófrágengin. Fleiri lekar komu svo upp í kjölfarið. Kaupendur eignarinnar kröfðu byggingaraðilann, Byggir Sig, um að skipta út klæðningu á húsinu og fá þá hæfa aðila í verkið. Byggingaraðilinn kom að einhverju leyti til móts við kröfur kaupenda, en þó ekki alfarið.

Dómkvaddur matsmaður tók undir með kaupendum að ýmsir annmarkar væru á eignunum sem stafi meðal annars af ófullnægjandi vinnubrögðum og slæmum frágangi við smíði þeirra. Mat hann heildarkostnað við úrbætur á ágöllunum á tæpar 31 milljón.

Kaupendur stefndu í málinu Byggir Sig ehf, byggingarstjóra, húsasmíðameistara, hönnuði parhússins og Verði tryggingum.

Ófaglegur og verulega ófullkominn frágangur

Dómari taldi sannað að hönnun og frágangur þaks og þakklæðningar hafi verið ófullnægjandi og í andstöðu við ákvæði mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Þetta væri galli í skilningi laga um fasteignakaup. Frágangur veggjaklæðninga væri eins ófaglegur og verulega ófullkominn. Skipta þurfi um alla klæðningu. Þetta taldist einnig galli.

Aðrir gallar voru meðal annars frágangur steypu undir svalagólfi, ófaglegur frágangur á lofttúðu á þaki, svalahandrið uppfyllti ekki kröfur byggingarreglugerðar, stigahandrið væri ófullnægjandi, frágangi drenlagnar væri ábótavant og eignirnar voru afhentar án útiljósa sem væri ekki í samræmi við teikningar.

Dómari féllst þó ekki á allar kröfur kaupenda og taldi t.d. ósannað að galli væri á opnanlegum fögum glugga og benti á að skortur á loftræsingu væri ekki galli þar sem slíkt var í samræmi við skilalýsingu. Eins væri það ekki galli að sorptunnuskýli gerði ekki ráð fyrir nema tveimur sorptunnum, í samræmi við byggingarreglugerð enda kom það skýrt fram í skilalýsingu að  um tveggja tunnu sorpskýli væri um að ræða.

Aðgæsluskylda minni þegar um nýja eign er að ræða

Byggir Sig bar því við að kaupendur eignanna gætu ekki borið fyrir sig galla sem mátt hefði sjá við þá skoðun sem þeim bar að framkvæma fyrir kaupin. Dómari var þessu ósammála og áréttaði að aðgæsluskylda kaupenda þegar um nýja eign er að ræða er mun minni en á eldri eignum. Eins taldi Byggir Sig með vísan til tómlætis að kaupendur gætu ekki borið fyrir sig göllum sem þeir tilkynntu um meira en einu og hálfu ári eftir afhendingu. Dómari benti á að ekki væri annað að sjá af gögnum málsins en að kaupendur hafi ítrekað gert athugasemdir við galla innan eðlilegs tíma eftir því sem að þeir komu í ljós.

Dómari taldi að Byggir Sig bæri ábyrgð á öllum göllum sem fallist hefði á að væru til staðar í eignunum.

Hvað byggingarstjórann varðaði rakti dómari að byggingarstjóra beri að hafa eftirlit með því að þeir sem koma að byggingu mannvirkis fylgi samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum og ákvæðum laga og reglugerða. Komi verulegir ágallar fram sem rekja megi til stórfelldrar vanrækslu á verksviði iðnmeistara eða hönnuða beri byggingarstjóri meðábyrgð. Hins vegar beri byggingarstjóri ekki ábyrgð á faglegri framkvæmd verkþátta einstakra iðnmeistara. Umræddar eignir voru enn í byggingu þegar þær voru seldar og ekki komnar í umsamið ástand. Ekki hafði verið boðað til lokaúttektar þegar þær voru seldar og ekkert sem gefi ástæðu til að ætla að byggingarstjóra hafi verið kunnugt um sölu eignanna eða að til stæði að selja þær áður en öllum verkþáttum væri lokið. Byggingarstjóri geti ekki borið ábyrgð á óloknum verkþáttum. Byggingarstjórinn var því sýknaður.

Húsasmíðameistarinn var einnig sýknaður, enda samdi byggingaraðili hússins við aðra iðnmeistara um byggingu hússins og húsasmíðameistarinn kom hvergi nærri göllunum.

Hvað hönnuð hússins varðar var vísað til þess að galli í hönnun hafi verið ein af ástæðum þess að fara þurfti í úrbætur. Ágallar voru í hönnun að því er varðar loftun þaks og taldi dómari að hönnuðurinn bæri sameiginlega skaðabótaábyrgð með Byggir Sig hvað þann þátt varðar.

Loks var það Vörður, en þar voru byggingarstjóri og hönnuður tryggðir. Vörður var sýknaður hvað byggingarstjórann varðaði en ber sameiginlega ábyrgð með hönnuði bygginganna.

Byggir Sig þarf að greiða öðru parinu um 12,6 milljónir og hinu parinu um 10,5 milljónir. Þar af greiði hönnuður og Vörður trggingar annars vegar um 2,6 milljónir og hins vegar um 984 þúsund óskipt með Byggir Sig. Eins var Byggir Sig gert að gefa út afsal til kaupenda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tveir Íslendingar létust í umferðarslysinu í Suður-Afríku og einn liggur lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi

Tveir Íslendingar létust í umferðarslysinu í Suður-Afríku og einn liggur lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi
Fréttir
Í gær

Hafliði hvetur fólk til að hafa þetta í huga þegar það kaupir í matinn fyrir jólin

Hafliði hvetur fólk til að hafa þetta í huga þegar það kaupir í matinn fyrir jólin
Fréttir
Í gær

Brotið var á Höllu í fjögur ár í æsku – „Sem ung stúlka vildi ég hefnd. Ég er enginn engill“

Brotið var á Höllu í fjögur ár í æsku – „Sem ung stúlka vildi ég hefnd. Ég er enginn engill“
Fréttir
Í gær

Bónus hefur styrkt góðgerðarmál um rúmlega 50 milljónir króna á síðustu fimm árum

Bónus hefur styrkt góðgerðarmál um rúmlega 50 milljónir króna á síðustu fimm árum