
Fornleifafræðingar í Póllandi hafa uppgötvað leyndar grafhvelfingar musterisriddara undir kirkju í smáþorpinu Chwarszczany í vesturhluta landsins, skammt frá landamærunum við Þýskaland. Fundurinn hefur vakið heimsathygli en í hvelfingunum hafa fundist leynileg göng, bein sem sumir telja að séu af musterisriddurum og þá telja bjartsýnustu fræðimenn að í hvelfingunum gæti hið heilaga gral leynst, sem er einn eftirsóttasti helgigripur sögunnar.
Rannsóknir á grafhvelfingunum hófust árið 2004 en með nýrri jarðsjártækni gátu vísindamenn skannað hvelfinguna, sem er undir kapellu sem tileinkuð er heilögum Stanislaus, og séð þar móta fyrir áðurnefndum uppgötvunum. Ljóst er að framundan er tímafrekt og vandasamt verkefni við að grafa hvelfingarnar upp.
Regla musterisriddara, sem var stofnuð áruð 1119 af franska riddaranum Hugo de Payens, gegndi lykilhlutverki í krossferðum miðalda. Reglan varð fljótt afar áhrifamikil og auðug og hefur starfsemin alla tíð síðan verið sveipuð dulúð.
Kirkjan í Chwarszczany var reist árið 1232 af musterisriddurum og gegndi jafnt hlutverki guðshús og varnarmannvirkis. Sú fortíð ýtir undir áðurnefndar kenningar um að hvelfingarnar og göngin tengist reglunni goðsagnarkenndu.
Starfsemi reglu Musterisriddara var þó skammvinn. Árið 1307 lét Filippus fjórði Frakkakonungur handtaka flesta meðlimi reglunnar, að því er sagt er til þess að ná undir sig auð þeirra og styrkja stöðu sína. Fimm árum síðar leysti Klemens V páfi regluna formlega upp þó að eftirlifandi reglubræður hafi haldið starfseminni áfram undir öðrum merkjum.