fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Eyjan

Séra Örn Bárður Jónsson: Var með doða í öðru heilahvelinu eftir námið

Eyjan
Laugardaginn 13. desember 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar séra Örn Bárður Jónsson hóf nám í guðfræði fékk hann ekki námslán vegna þess að honum var ætlað að lifa af tekjum ársins á undan. Hann var því í einu og hálfu starfi við að kosta sig í gegnum námið en lauk samt fimm ára námi á fjórum árum. Á eftir var hann með doða í öðru heilahvelinu sem hvarf ekki í einhverja mánuði. Meðal þess sem hann þurfti að læra var hebreska og forngríska og hvort málið um sig er með sitt stafróf. Séra Örn Bárður er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Hér er hægt að hlusta á brot úr þættinum:

Örn Bárður - 2
play-sharp-fill

Örn Bárður - 2

„Þá byrja ég í háskólanum. Ég er að byggja og ég er með fjölskyldu. Og ég fæ ekki námslán vegna þess að reglurnar voru svona: Þeir segja: „Nei, þú ert með tekjur í fyrra.“ Það er eins og maður hafi bara lagt þær fyrir. Maður átti auðvitað ekki krónu eftir eftir árið. Þannig að ég varð bara að vinna fyrir mér allan tímann. Ég var í hálfu starfi í Grensáskirkju. Ég fékk fullt starf sem næturvörður á sambýli þroskaheftra í Auðarstræti. Átti að koma fólkinu þar í rúmið og vekja það að morgni. Þetta var fólk sem var það þroskað að það gat farið í vinnu á morgnana, vann á annaðhvort á vernduðum vinnustöðum eða var að raða í hillur í búðum eða eitthvað slíkt. Og yndislegt að kynnast þessu þroskahefta fólki, dýrmætt. Elskulegt og yndislegt fólk. En ég mátti sofa þarna, ég átti bara að koma þeim í háttinn. Og svo kom kona á morguninn til að hjálpa þeim við að undirbúa morgunmatinn áður en þau fóru í strætó í vinnuna. Og ég lagði mig bara, þarna var rúm með sæng og kodda og allt þetta. Þau máttu vekja mig ef eitthvað kom upp og þau þurftu aldrei að vekja mig. Þannig að ég gat sofið þarna fjórar nætur í senn og svo var ég fjórar nætur heima. Þannig að ég var í einu og hálfu starfi og í fullu í guðfræðinni og ég kláraði fimm ára nám á fjórum árum. Með góðum vitnisburði, enda ég vann alveg eins og … ég var svo skipulagður að ég braut bækurnar niður í kafla. Bara skammta. Fyrir prófin sko, klára þetta. Lesa 100 blaðsíður á dag og svo tek ég prófið eftir fimm daga. Einhverjir 500 síðna doðrantar og þetta bara gekk mjög vel enda áhuginn mikill.“

En þetta slítur, menn verða að anda eftir svona …

„Ég er með hnúð hérna á löngutönginni. Ég skrifaði alltaf með blekpenna. Og það var skrúfgangur á honum fremst. og ég fékk líkþorn hérna á fingurinn eftir skrifin. Og þegar ég kláraði prófið, haustið ’84, var ég með svona doða í öðru heilahvelinu og það fór svona eftir einhverjum mánuði. Maður var að lesa grísku og hebresku, þessi gömlu tungumál, og takast á við svona hluti og trúarbrögð, lesa um öll trúarbrögð heims og alls konar fræði, sálgæslufræði og ég veit ekki hvað og hvað.“

Þurfa prestar eða guðfræðingar að tileinka sér ákveðna kunnáttu í þessum málum eins og grísku og hebresku?

„Já, vegna þess að Gamla testamentið er ritað á hebresku en Nýja testamentið er allt ritað upphaflega á forngrísku. Þess vegna verðum við að læra forngrísku og taka próf í tungumálinu sem slíku og síðan voru bara próf eins og í nýjatestamentisfræðum. Þá fékkstu bara texta á grísku á blaði og ég man ég þurfti að læra tvö ný stafróf í sömu vikunni. Hebreska stafrófið sem er aftur á bak, frá hægri til vinstri, og gríska stafrófið sem er frá vinstri til hægri. Og ég man ég lærði þessi stafróf í sömu vikunni og svo var maður að grauta í þessum textum. Ég tala ekki hebresku eða grísku en ég get svona stafað mig í gegnum Nýja testamentið og flett upp orðum.“

Hvernig er það, þegar þú kannt stafrófið, ertu þá ekki komin dálítið langt? Af því að oft er nú, uppruni orðanna eitthvað tengdur milli tungumála.

„Jú, maður sér auðvitað vissan skyldleika, það er einhver skyldleiki milli latínu og grísku og hugtök og annað. Þarna eru grundvallarhugtök í grísku, eins og til dæmis eitt af þessum stóru hugtökum í kristninni sem er logos, sem er þýtt „orðið“. Í upphafi var orðið. En arche en ho logos, segir í grískunni. Og logos er miklu meira en orð. Það er hugsun, það er kraftur, það er eitthvað miklu stærra og flottara þannig að þegar maður fer að lesa þessi orð þá skynjar maður dýptina á bak við textana. Og þegar maður er búinn að stúdera svona og læra ritskýringu og annað, þá, maður les til dæmis skáldsögur allt öðruvísi. Það er bara að undirbúa mann dálítið svona eins og bókmenntafræðing.“

Þetta er náttúrlega tengt bókmenntafræði.

„Já, bókmenntafræðin er náttúrlega komin út úr guðfræðinni. Og þess vegna er guðfræðin ein af frumgreinum háskólans. Ef þú horfir á Háskóla Íslands, aðalbygginguna, yfir anddyri háskólans er stór og mikill gluggi og þar eru þrjár súlur. Þær eru fyrir gömlu skólana. Það er prestaskólinn, það er latínuskólinn og það er læknaskólinn. Þannig að þarna eru þessar frumgreinar og hér áður fyrr lærðu menn mikið sömu greinarnar. Sá sem fór í læknisfræði eða lögfræði og var sýslumaður á Íslandi þurfti að læra heilmikið um kristindóminn og fornu tungumálin og allt þetta. Allir þessir menn lærðu sömu heimspekina og náttúrufræði og annað. Menn voru meira og minna menntaðir í sömu fræðunum í grunninn. Núna er farið að sérmennta fólk svo mikið að hver og einn er að grafa sinn skurð og þeir vita ekkert hvað maðurinn í næsta skurði er að gera. Þannig að skilningurinn á milli greina er ekki eins mikill og var í gamla daga.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Karl Ágúst Úlfsson: Aldurinn farinn að segja til sín – eins gott að þú ert að hætta

Karl Ágúst Úlfsson: Aldurinn farinn að segja til sín – eins gott að þú ert að hætta
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Litli hluthafinn rýfur málhvíldina

Þorsteinn Pálsson skrifar: Litli hluthafinn rýfur málhvíldina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stjórnarandstaðan gagnrýndi fjarveru Guðmundar Inga – Var svo upplýst um að ráðherra liggur á sjúkrahúsi

Stjórnarandstaðan gagnrýndi fjarveru Guðmundar Inga – Var svo upplýst um að ráðherra liggur á sjúkrahúsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Biðskylda
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku
Reiði skólameistarinn
Hide picture