fbpx
Sunnudagur 23.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hægribylgjan og menningarstríðið

Eyjan
Sunnudaginn 23. nóvember 2025 16:00

Hið kunna verk þýska málarans Caspar David Friedrich „Der Wanderer über dem Nebelmeer“ frá árinu 1818. Varðveitt í Hamburger Kunsthalle.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessi misserin er gjarnan rætt um hægribylgju í stjórnmálum Vesturlanda. Samt er það svo að hin rótgrónu borgaralegu öfl eiga víðast hvar í tilvistarkreppu en á sama tíma koma fram nýir flokkar hægra megin við miðju sem boða miklu skýrari áherslur, stundum öfgakenndar en oftar en ekki málflutningurinn lítið annað en endurómur af viðhorfum borgaralegu flokkanna á árum áður þegar áherslur voru á ýmsan hátt skýrari en þær hafa orðið á seinni tímum.

Fyrir sjö árum birtist í Welt grein Alexander Dobrindt sem markaði nokkur tímamót í umræðunni. Dobrindt var þá oddviti CSU á Sambandsþinginu í Berlín, en í greininni hamraði hann á mikilvægi þess að íhaldssöm borgaraleg öfl létu til sín taka á nýjan leik. Vinda yrði ofan af þeirri öfugþróun sem fylgt hefði vinstribyltingu svokallaðrar 68-kynslóðar. Við blasti að þorri Þjóðverja væri borgaralega sinnaður og aldrei nokkru sinni hefði verið til staðar í landinu róttækur vinstrimeirihluti. Hvað sem því liði þá væri þjóðfélagsumræðunni stjórnað af vinstri mönnum, róttækir vinstrimenn hefðu í mótmælunum 1968 boðað „March durch die Institutionen“ og tryggt sér með tíð og tíma helstu lykilstöður í listum, menningu, fjölmiðlum og stjórnmálum. Þarna færi hávær minnihluti sjálfskipaðra alþýðufræðara (þ. selbst ernannten Volkserziehern) sem hefði tögl og hagldir í opinberri umræðu.

Dobrindt benti á að 68-hreyfingin hefði verið hreyfing forréttindastétta (þ. Elitenbewegung), manna úr fyrirlestrasölum háskólanna og af ritstjórnarskrifstofum dagblaðanna. Þessi nýja valdastétt í þýsku þjóðfélagi væri og hefði alltaf verið úr tengslum við fólkið í landinu, hvort sem það væri af borgarastétt eða alþýðustétt. Nýja stéttin hefði fyllst óbifandi trú á siðferðilega yfirburði sín sjálfs (þ. unverrückbaren Glauben an die eigene moralische Überlegenheit) og uppreisnin orðið að herferð til að „endurmennta“ hina borgaralegu millistétt.

Meinvörp 68-kynslóðarinnar

Dobrindt tók svo til orða að Þýskalandi væri ekki hverfið Prenzlauer Berg í austurhluta Berlínar en samt sem áður væri Prenzlauer Berg viðmiðið í þýskri þjóðfélagsumræðu. Sífellt fleirum fyndist sem afstaða þeirra, skoðanir — já og daglegt líf — ætti sér ekki lengur fulltrúa í opinberri umræðu. Hávær stjórnmálabarátta fyrir jafnrétti, tjáningarfrelsi og umburðarlyndi ætti við um alla aðra en þá sjálfa og á sama tíma og hinar ráðandi stéttir töluðu fyrir fjölbreytileika mannlífsins samþykktu þær í reynd aðeins eina skoðun — sína eigin.

Greinin var skrifuð 2018 þegar hálf öld var liðin frá svokallaðri 68-byltingu; nú væri brýnt að skera burt þau meinvörp sem byltingin hefði haft í för með sér, tími væri kominn til aukinnar íhaldssemi — hefja yrði borgaraleg gildi aftur til vegs og virðingar. Meinið væri þó ekki lengur bundið við hina sjálfumglöðu vinstrisinnuðu valdastétt heldur hefði það stökkbreyst. Það hefði leitt af sér ofstækisfulla umhverfisverndarstefnu (sem nú hefur haft í för með sér að alvarlegan orkuskort) og hin nýja stétt vinstrimanna væri í ofanálag umburðarlynd gagnvart íslömskum ofstækisöflum sem vildu tortíma frjálslyndum vestrænum samfélögum.

Dobrindt sá fyrir það menningarstríð sem segja má að ríki á Vesturlöndum í okkar samtíma og taldi brýnt að kristilegu flokkarnir legðust á árarnar með íhaldssömum byltingarmönnum sem vildu hefja borgaraleg gildi til vegs og virðingar. Hann rakti síðan þá ýmsu þætti sem leggja yrði áherslu á. Þar væri kristin trú efst á blaði, vestræn menning væri umfram allt kristin. Vernda yrði lífið og mannlega reisn. Þetta skipti ekki síður máli gagnvart innflytjendum — þeim yrði að gera ljós þau kristilegu gildi sem samfélagið hvíldi á. Hverjum þeim sem hygðist hunsa þau gildi skyldi vikið úr landi. Samfélagið yrði allt að hugsa út frá einstaklingnum og því næst fjölskyldunni. Pólitískar ákvarðanir ættu ætíð að taka mið af því sem kæmi fjölskyldunni sem best, hvort sem það væru menntamál, skattamál eða hvaðeina annað. Föðurlandsástin væri næst á blaði, nokkuð sem 68-kynslóðin svonefnda hefði fyrirlitið. Á tímum hnattvæðingar ykist hættan á rótleysi. Föðurlandsást væri í reynd forsenda alþjóðahyggju því maður án sjálfsmyndar gæti ekki virt aðrar þjóðir.

Menningarstríðið er rétt að hefjast

Ulf Poschardt, útgefandi Welt, rifjaði upp hinn fræga pistil Dobrindt í grein sem birtist á Welt í gær og benti á að margir borgaralega sinnaðir stjórnmálamenn teldu sig nú hafa sigrað „menningarstríðið“ þar eð horfið hefði verið frá svonefndu kynjamáli. Slíkt væru þó tómar blekkingar. Nú um stundir mældust Græningjar með innan við 12% fylgi á landsvísu en áhrif þeirra væru samt sem áður gríðarleg í krafti margra áhangenda í áhrifamiklum stöðum. Vesaldómur borgarstéttarstéttarinnar væri sá að hún væri hætt að lesa bækur og hefði gengið hinu tilfinningaþrungna vinstri á hönd — borgarastéttin hefði hreinlega gleymt öllum vitsmunalegum metnaði. Poschardt segir unga fólkið yst á hægrivængnum í austurhluta landsins gera sér grein fyrir því að mesti veikleiki millistéttarinnar sé einmitt fólginn í vitsmunalegu metnaðarleysi og vanrækslu (þ. Anspruchslosigkeit und Nachlässigkeit). Unga fólkið hægra megin sem styðji Alternative für Deutschland leggi sig því fram við að öðlast vitsmunalega yfirburði yfir hina gamalgrónu borgarastétt — og þar þurfi ekki mikið til.

Poschardt segir brýnt að Friedrich Merz kanslari og aðrir forkólfar kristilegu flokkanna geri sér grein fyrir því að róttækir vinstrimenn muni aldrei fallast á neina málamiðlun, þeir haldi áfram sínu menningarstríði út í það óendanlega. Borgaralegu öflin megi því ekki gefa þumlung eftir í baráttunni. Poschardt nefnir sem dæmi að áðurnefndur Dobrindt, sem nú er orðinn innanríkisráðherra (og Poschardt telur raunar gáfaðasta manninn í ríkisstjórninni), hafi á dögunum skipað róttækan vinstrimann úr röðum sósíaldemókrata í embætti forstöðumanns stofnunar um borgaralegu fræðslu (þ. Bundeszentrale für politische Bildung) og viðkomandi sé þar með settur í embætti aðalhugmyndafræðings Sambandslýðveldisins. Umræddri stofnun var komið á fót 1952 en hún útbýr kennslu- og upplýsingaefni fyrir stjórnmálafræðslu. Framan af var hún hlutlæg fræðastofnun en hefur fyrir löngu verið hertekin af róttækum vinstrimönnum eins og aðrar menningarstofnanir.

Borgarlegu öflin í Þýskalandi, jafnt sem annars staðar í álfunni, verða að gera sér grein fyrir því að taka mun áratugi að vinda ofan af öfgahyggju sem gegnsýrir þjóðfélögin. Menningarstríðið er rétt að hefjast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sleikipinnapólitík

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sleikipinnapólitík
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um breytingar og hitt sem ekki breytist

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um breytingar og hitt sem ekki breytist
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins

Svarthöfði skrifar: Þolinmæði þrotin gagnvart óhæfum, vanstilltum og spilltum silkihúfum á toppi kerfisins
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sorg þeirra er okkar sorg
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?

Björn Jón skrifar: Hver er merkasti forsætisráðherra aldarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig