
Fyrir þremur árum var Linda Sæberg nýlega fertug, átti tvö börn og hafði gengið í gegnum krefjandi krabbameinsmeðferð nokkrum árum áður. Hún átti alls ekki von á því að ástin myndi banka upp á og hafði meira að segja sagt systur sinni að hún væri búin með þann pakka. En ástin bankaði upp á og það með hvelli, maður sem hafði í tvo áratugi verið nálægt henni en hún aldrei hitt. Ástarsaga Lindu og Ágústs Úlfars Eyrúnarsonar, eða Gústa Chef eins og hann er kallaður, minnir helst á bíómynd. Hún segir frá henni í Fókus, viðtalsþætti DV.
Hún ræðir um ástina, þeirra fyrstu kynni og svo margt meira í þættinum sem má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
„Ég var búin að vera einhleyp í svolítinn tíma þegar ég kynntist honum,“ segir Linda og rifjar upp samtal sem hún átti við systur sína stuttu áður en leiðir þeirra lágu saman.
„Systir mín spurði mig: „Viltu nú að fara að gefa einhverjum séns?“ Og ég svaraði: „Nei, veistu, ég held að ég muni ekki fara aftur í sambúð eða eignast annan mann. Ég held ég bara eignist kannski bara einhvern tímann svona vin sem ég get farið með til útlanda eða farið á tónleika með.“ Og ég man að hún stóð og horfði á mig, hún er níu árum yngri en ég, og sagði: „Ertu 80 ára? Er ekki í lagi með þig?“ En ég sagði: „Ég held bara að ég sé búin,““ segir Linda.
„Ég á nokkur sambönd að baki þar sem ég var ekki að velja rétt og var ekki að velja fyrir mig.“ En með mikilli sjálfsvinnu komst Linda á betri stað.
„Ég var búin að fara mjög mikið inn á dýptina og pæla mikið í þessu, ef ég ætlaði að gera þetta aftur, ef ég ætlaði að hleypa einhverjum að mér aftur, hvað væri það þá sem ég vildi? Þannig að ég, verandi konan sem ég er, var búin að manifesta þennan mann. Ég var búin að skrifa hann og ég var algjörlega búin að teikna hann upp. Ég var bara búin að skrifa nákvæmlega: „Jú, ókei, ef ég geri þetta aftur, þá vil ég þetta og þetta og þetta. Ég vil að hann sé svona.“

Linda og Gústi áttu sameiginlegan kunningja sem fannst eins og þau myndu passa vel saman, en það mætti líka segja að alheimurinn hafi leitt þau saman.
„Við höfum í rauninni verið hlið við hlið frá því ég var svona sextán ára en höfðum aldrei hist,“ segir hún og bætir við að það hafi verið eins og alheimurinn hafi verið að bíða eftir að þau væru bæði tilbúin.
„Því við eigum bæði fortíð og vorum bara ekki tilbúin að hittast fyrr. Við bjuggum í sömu götu á sama tíma. Ég borðaði örugglega svona tvisvar til þrisvar sinnum í mánuði á veitingastaðnum hans þegar ég var ófrísk af eldra barninu mínu og við eigum fullt af sameiginlegum vinum. Við höfum meira og minna verið hlið við hlið. Okkur grunar að ég hafi verið boðflenna í þrítugsafmælinu hans.“

„Þetta byrjar eins og hvert annað Instagram samtal. Við töluðum stanslaust saman í tvo daga frá fyrstu skilaboðum og á þriðja deginum hringdi hann í mig. Ég er ekki vön að svara ókunnugu fólki í símann nema ég svara þarna og við tölum saman í símann í þrjá tíma, þangað til ég segi honum að ég sé á leiðinni á stefnumót,“ segir Linda og hlær.
„Hann sagði bara: „Já ókei, ekkert mál. Hringdu í mig þegar þú ert búin.“ Ég sagði að hann hefði greinilega ekki mikla trú á þessu stefnumóti og hann sagðist ekki gera það. Ég fór á þetta stefnumót, með ofboðslega yndislegum manni, en ég var sennilega búin að vera á deitinu í svona fimmtán mínútur þegar ég var farin í fyrstu klósettferðina mína til þess að svara skilaboðum frá Gústa. Þannig að það endaði með því að ég sagði bara að hann þyrfti að keyra mig heim, að ég væri með hugann annars staðar. Ég lét svo Gústa vita að ég væri komin heim og hann hringdi í mig á FaceTime og fyrsta stefnumótið okkar er bara sex klukkustunda FaceTime símtal til tvö um nóttina.“
Næsta dag hringdi hann aftur í hana. „Hann spurði: „Heyrðu, ég kem í bæinn á eftir. Á ég ekki að kíkja bara aðeins á þig?“ Ég var að fara út að borða með vinkonu minni en sagði honum að hann mætti alveg kíkja í heimsókn. Og hann kom og steig inn í forstofuna til mín og við tókum utan um hvort annað. Þetta var í fyrsta skipti í lífinu mínu sem það hægðist á hjartslættinum á mér. Hjartslátturinn og taugakerfið mitt róaðist. Við stigum einhvern veginn inn í orku hvers annars og vorum bara: „Ó, vá, bara hvað er þetta?““
Linda fór út að borða með vinkonu sinni og fór síðan aftur að hitta Gústa. „Og við höfum í rauninni ekki farið í sundur síðan,“ segir hún.
„Sem betur fer hittumst við ekki áður vegna þess að ég hefði aldrei getað tekið á móti svona djúpri ást,“ segir Linda. Hún ræðir nánar um sambandið, trúlofunina og flutninginn í hundrað ára gamalt hús sem stendur við sjóinn fyrir utan Álftanes í þættinum. Hún ræðir einnig um krabbameinsferlið og hvernig hún fann sig í spiritúalisma eftir það. Hlustaðu á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Sjá einnig: Linda man eftir að hafa horft í kringum sig á aðfangadag og hugsað: „Eru þetta síðustu jólin mín?“
Fylgdu Lindu á Instagram.