
Táningur fannst látinn á skemmtiferðaskipi þann 8. nóvember. Ræstitæknir fann lík stúlkunnar undir rúminu í káetu hennar, vafið inn í teppi og falið með björgunarvestum. Lögreglu þykir ljóst að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti og rannsakar nú hvort að 16 ára stjúpbróðir stúlkunnar hafi gerst sekur um morð.
Anna Kepner var aðeins 18 ára gömul þegar hún lést í fjölskylduferðinni. Hún kom úr stórri fjölskyldu, hún á tvö yngri systkini en nýlega stækkaði hópurinn töluvert þegar faðir hennar giftist stjúpmóður hennar sem átti þrjú börn úr fyrra sambandi.
Stjúpmóðir hennar stendur enn í harðvígum forsjárdeilum við barnsföður sinn þar sem ofbeldisásakanir hafa gengið á víxl. Hún hefur nú óskað eftir frestun þinghalds í því máli með vísan til þess að 16 ára sonur hennar sé sakborningur í morðmáli og eigi mögulega yfir höfði sér ákærðu.
Anna var vinsæl. Hún var klappstýra í skólanum sínum og átti að útskrifast í vor. Eftir útskrift var stefnan tekin á herinn og þaðan í lögregluna þar sem Anna vonaðist eftir að fá að vinna í deild með lögregluhundum.
Skóli hennar og vinir segjast í losti yfir málinu enda hafi Anna verið hvers manns hugljúfi, með munninn fyrir neðan nefið, forvitin og hugulsöm. Faðir hennar segir að lífi fjölskyldunnar hafi verið kollvarpað. Hann treysti sér varla á netið þar sem umræðan sé ónærgætin í garð fjölskyldunnar. Stjúpbróðirinn dvelur nú hjá ættmennum á meðan lögreglan rannsakar málið.
Anna var virk á samfélagsmiðlum og fjölluðu síðustu færslur hennar um ástarsorg.