
Kennarinn, hinn 27 ára Dylan Robert Dukes, sendi fyrrverandi nemanda sínum, 11 ára stúlku, 64 ástarbréf, gjafir og gaf henni óumbeðin faðmlög.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla, WSAZ og Fox Carolina meðal annars, kemur fram að Dylan hafi ítrekað sett sig í samband við stúlkuna eftir að hún hætti í skólanum sem hann kenndi við, Starr-barnaskólanum Elementary School.
Foreldrar stúlkunnar tilkynntu málið til lögreglu og þegar gerð var leit í skrifborðsskúffu hans fannst fjöldi ljósmynda af stúlkunni. Lögregla tók þó fram að engar þeirra hefðu verið af kynferðislegum toga.
Móðir stúlkunnar sagði fyrir dómi að hegðun kennarans hefði haft mikil áhrif á hana. Benti hún á að í skólanum ætti hún að eiga skilyrðislausan rétt á að finna fyrir öryggi, en Dylan hefði brotið gróflega gegn því trausti sem átti að ríkja í samskiptum þeirra.
Dylan var sendur í leyfi frá Starr-barnaskólanum þegar málið komst upp, en í frétt People kemur fram að hann hafi verið valinn kennari ársins þar skólaárið 2023-2024.
Dylan játaði sig sekan í málinu og var hann dæmdur í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi. Hann þarf að halda skilorð næstu fimm árin, ella eiga á hættu að vera sendur í fangelsi.
Auk þess þarf hann að sækja geðheilbrigðisráðgjöf, skila kennsluréttindum sínum auk þess að hlíta varanlegu nálgunarbanni sem bannar honum að hafa samband við stúlkuna eð fjölskyldu hennar.