

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörgu að snúast í dag en athygli vekur að í dagbók lögreglu er greint frá sjö tilvikum um þjófnað í verslun og tvö tilvik um innbrot í bifreið.
Á svæði lögreglustöðvar 1 (Hverfisgötu) var í þrígang tilkynnt um þjófnað í verslun í dag. Öll málin voru afgreidd á vettvangi með skýrslutöku.
Hjá lögreglustöð 2 (Flatahrauni) bárust tvær tilkynningar og málin afgreidd með sama hætti og greinir að framan.
Tvö tilvik voru svo tilkynnt hjá lögreglustöð 3 (Dalvegi) og einnig afgreidd á vettvangi.
Einnig var tilkynnt um tvö yfirstaðin innbrot í bifreið og eitt í bílskúr. Öll þrjú málin eru í rannsókn.
Umferðarslys átti sér stað á svæði lögreglustöðvarinnar á Flatahrauni en þar var ekið á gangandi vegfaranda. Einn var fluttur með sjúkrabifreið til frekari skoðunar á bráðamóttöku, en meiðslin þykja minniháttar.