

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, og Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni.
Mikið hefur gengið á bak við tjöldin í íslenskum fótbolta undanfarið, sér í lagi hjá stóru liðunum. Í þættinum var það rætt að Helgi Hrannar Jónsson væri hættur sem formaður meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni. Var hann ósammála stefnunni á bak við tjöldin, þar sem sjálboðaliðum var til að mynda skipt út.
„Vinur minn sem fylgist ekkert mikið með fótbolta talaði um það við mig hvað væri mikil dramatík í íslenskum fótbolta. Þá fór ég að pæla, Víkingur er með allt á hreinu og Kári Árnason svarar bara fyrir allt, öll hin félögin í efri hlutanum, Valsmenn, Stjarnan, Breiðablik, sem virðist vera alveg klofið, dramatíkin í kringum kvennalið Fram og svo FH og viðskilnaðinn við Heimi,“ benti Elvar á.
„Það vantar ekki dramatíkina og það er ólgan á bak við tjöldin hjá nánast öllum liðum á Íslandi,“ sagði hann enn fremur.
Þátturinn í heild er í spilaranum.