
Kona hefur stefnt karlmanni fyrir Héraðsdóm Reykjanes og krefst hún að henni verði veittur lögskilnaður frá mannnum. Til vara krefst hún þess að henni verði veittur skilnaður að borði og sæng.
Stefnan birtist í Lögbirtingablaðinu. Fólkið er erlent en býr hér á landi. Þau kynntust í lok mars árið 2024 og gengu í hjónaband í ágústmánuði það ár. Segir í stefnunni að í upphafi sambandsins hafi allt leikið í lyndi en eftir giftinguna hafi maðurinn byrjað að fjarlægjast konuna. Læddist fljótlega að konunni grunur um að maðurinn hefði gifst henni af hagkæmnisástæðum og um væri að ræða málamyndahjónaband af hans hálfu. Í stefnunni segir: „Aðilar ræddu skilnað fyrst í upphafi árs 2025 þar sem sundurlyndi hjónabandsins jókst sífellt. Aðilar eiga ekki saman börn og eiga engar sameiginlegar eignir. Stefnanda er kunnugt um að stefndi sé enn staddur á Íslandi en telur hann líkast til ekki með dvalarleyfi hérlendis og ekkert skráð lögheimili.“
Konan sótti um skilnað hjá sýslumanni í febrúar á þessu ári. Var eiginmaðurinn boðaður til fundar en sinnti ekki mætingum þrátt fyrir fyrirheit um að mæta.
Konan bendir á í stefnu sinni að hún sjái sér ekki fært að vera í hjónabandinu enda ljóst að sambandinu sé lokið og engin samskipti hafi verið milli hjónanna undanfarið. Er henni því nauðsynlegt að höfða málið þar sem hjónin eru ekki sammála um skilnað.
Er manninum birt fyrirkall um að mæta til dóms þegar málið verður tekið fyrir við Héraðsdóm Reykjaness þann 10. desember næstkomandi. Dómur kann að falla að manninum fjarstöddum ef hann mætir ekki.