

El Hadji Diouf, fyrrum framherji Liverpool, gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóm í heimalandi sínu Senegal eftir ásakanir um að hafa ekki greitt meðlag til fyrrverandi eiginkonu sinnar.
Diouf, sem er 44 ára, mætti ekki fyrir dóm í Dakar á þriðjudag. Eftir skilnað hans við Valerie Bishop árið 2023 var hann dæmdur til að greiða henni því sem nemur um 111 þúsund krónum á mánuði í meðlag fyrir dóttur þeirra, Keylu, auk skólagjalda og lækniskostnaðar.
Samkvæmt Bishop hefur hann ekki greitt síðan í mars í fyrra og skuldar nú yfir 2,3 milljónir.
Lögmaður hennar sagði að Diouf hefði næg fjárráð til að greiða en neiti einfaldlega að gera það. Samkvæmt lögum í Senegal getur vanefnd á slíkum greiðslum leitt til fangelsisdóms.
Diouf á að mæta aftur fyrir héraðsdóm í Dakar 5. desember.