
Framundan eru réttarhöld við Héraðsdóm Norðurlands eystra á Akureyri gegn manni sem sakaður er um nokkur brot gegn valdstjórninni. Öll brotin tengjast aðgerðum félagsþjónustunnar í Dalvíkurbyggð á og við heimili mannsins á Dalvík, en um er að ræða búsetuúrræði á vegum sveitarfélagsins.
Ákæran er í þremur liðum og í fyrsta lið er ákært vegna atvika sem áttu sér stað sunnudaginn 4. september 2022. Er maðurinn ákærður fyrir að hafa hrint konu, sem var við skyldustörf sem starfsmaður félagsþjónustunnar, með þeim afleiðingum að hún féll aftur fyrir sig. Atvikið átti sér stað utandyra.
Maðurinn er síðan ákærður fyrir að hafa beitt lögreglumann ofbeldi innandyra með því að veita svo mikla mótspyrnu við handtöku að lögreglumaðurinn tognaði og marðist. Er hann síðan sakaður um að hafa beitt annan lögreglumann ofbeldi með því að sparka í hendi lögreglumannsins svo hann hlaut af áverka.
Annar ákæruliður varðar atvik frá þriðjudeginum 4. apríl 2023 en maðurinn er sakaður um að hafa þá hótað tveimur lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra líkamsmeiðingum og lífláti.
Einnig er hann sakaður um að hafa hótað starfskonu félagsþjónustu Dalvíkurbyggðar lífláti.
Þriðji ákæruliður varðar atvik frá miðvikudeginum 3. maí árið 2023. Er maðurinn ákærður fyrir að hafa svipt opinberan starfsmann frelsi með því að halda konu sem starfar hjá félagsþjónustunni nauðugri í starfsmannarými með því að neita henni um útgöngu, hindra för hennar og ógna henni.
Aðalmeðferð í málinu verður við Héraðsdóm Norðurlands eystra þann 13. nóvember næstkomandi.