

Ölvaður ökumaður var stöðvaður af lögreglu í Garðabæ í gærkvöld en tvö börn voru í bílnum með honum. Var barnavernd kölluð til vegna málsins.
Frá þessu greinir í dagbók lögreglu.
Alls voru 85 mál skráð hjá lögreglu frá kl. 17 í gær til 05 í morgun. Gistu 12 fangageymslur lögreglu í morgun.
Meðal annars voru þrír menn handteknir vegna slagsmála í miðborginni, var einn vistaður í fangaklefa en skýrsla tekin af hinum tveimur og þeim síðan sleppt.
Maður var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna eignaspjalla og fyrir að segja ekki til nafns að kröfu lögreglu.
Nokkuð óvænt kom í ljós þegar ökumaður var stöðvaður í hverfi 109 vegna þess að hann var ekki með kveikt ökuljós. Reyndist hann ekki vera með ökuréttindi og til að bæta gráu ofan á svart var hann eftirlýstur. Var maðurinn því handtekinn og vistaður í fangaklefa.