

Ég man eftir fyrsta foreldrafundinum sem ég sótti sem grunnskólanemi á fyrsta ári í Þorpinu á Akureyri. Mér fannst gaman í skólanum, ég hafði áhuga á námsefninu og ég var í bekk með besta vini mínum. Nánustu vinirnir á þessum tíma voru allir strákar og ég var í slagtogi með þeim í frímínútum og eftir skóla að leita að naglaspýtum og djúpum pollum. Á þessum foreldrafundi rann upp fyrir mér að ég mátti ekki hegða mér eins og þeir. Ég var óþekkasta stelpan í bekknum og ég hegðaði mér eins og strákarnir. Sem var slæmt, en ekki fyrir þá. Bara fyrir mig.
Tæpum tuttugu árum seinna fékk ég þá veilu – veilu segi ég – að gerast kokkanemi. Ég gekk á milli nokkurra staða í leit að meistara sem vildi taka mig í læri og á einum staðnum fékk ég þá ábendingu að viðkomandi hefði aldrei séð ljóshærða konu útskrifast úr þessu námi. Ég endaði þó á einum stað þar sem eldhúskúltúrinn var eitthvað á þá leið að auðvitað mætti reyna endalaust við stelpurnar í vinnunni. Þjóna- og kokkanema. Ef þær voru á lausu mátti kommenta, klípa, pota og snerta. Löngu fyrir me-too og allt það væl. Það var ekki áreiti, bara stemning. Þó að það bitnaði á vinnunni þeirra og væri auka álag, þá var þetta bara hluti af þessu, taktu bara hrósinu. Um leið og ég byrjaði á föstu með gítarleikara snarhætti áreitið. Virðingin fyrir honum var meiri en virðingin fyrir mér.
Þegar ég var í kvikmyndaskóla skrifaði ég opið bréf til stjórnar skólans og kallaði eftir fleiri kvikmyndum eftir konur á námsskrá. Svör skólans voru á þá leið að bréfið sem ég skrifaði skólanum hefði verið of langt og ég hefði mátt stytta það og snyrta stílinn. Ég fékk í framhaldinu hótun um kynferðisofbeldi frá karlkyns samnemanda. En það var auðvitað bara grín.
Nokkrum árum seinna var ég starfandi á stórum fjölmiðli og átti tvö ung börn. Það voru alvarleg veikindi í fjölskyldunni. Ég hægði ekki á mér, heldur klessukeyrði mig af vinnu og tók veikindaleyfi. Yfirmaður boðaði mig á lokaðan fund og tjáði mér að ég væri augljóslega ekki með rétta persónuleikann til að vinna undir álagi. Ég væri sennilega ekki manngerðin sem gæti unnið í fjölmiðlum. Ég sagði starfi mínu lausu nokkrum mánuðum seinna. Helgina eftir að ég hætti fékk ég like á bikini-mynd á Instagram frá sama yfirmanni um miðja nótt.
Ég fékk mér seinna starf á öðrum fjölmiðli þar sem áreitið var af öðrum toga. Eftir að ég fékk stöðuhækkun upphófst gróft kynbundið vinnustaðaeinelti sem endaði með inngripi stjórnenda og formlegri innanhússrannsókn. Rannsókninni lauk síðan með yfirlýsingu yfirmanna á þann veg að jú, það væri staðfest að um vinnustaðaeinelti og kynbundið áreiti væri að ræða. Ég skipti um deild.
Ég hef séð nokkrar konur lýsa því yfir opinberlega að þær séu ekki fórnarlömb, að þær barmi sér ekki yfir því að vera konur og hafi aldrei upplifað þessa meintu mismunun í atvinnulífinu eða síðri tækifæri á grundvelli kynferðis. Frábært, segi ég bara. Gott að það séu til konur sem hafa það svona gott. Það gleður mig að sú sé raunin. Ég set hins vegar spurningarmerki við fullyrðingar um tengsl við „fórnarlambshugarfar“ og ágæti amerískra áhrifavalda sem stappa í fólk stálinu með jákvæðni sætari en asesúlfam K, sem afneitar upplifun allra utan þess mengis sem er þægilega handvalið.
Ég er 39 ára gömul, ljós á húð og hár og alin upp á Íslandi, er í millistétt, menntuð, gift, gagnkynhneigð, ófötluð og móðir tveggja heilbrigðra barna. Ég er týpan sem hefur leikið í auglýsingu fyrir lánasjóð. Ég ætla ekki að nota það til að afneita tilvist misréttis sem ég veit mætavel að viðgengst á Íslandi í dag, bara vegna þess að ég sjálf mæti því ekki á hverjum einasta degi. Þrátt fyrir öll mín forréttindi hef ég upplifað allskonar fáránlegt kjaftæði í gegnum tíðina, og ég veit að síðasta fávitahlaðvarpið hefur ekki verið stofnað.
Í síðustu viku var kvennafrídagur. Margir stungu niður penna af þessu tilefni, fleiri óðu af stað en áttu erindi í svoleiðis skrif. Áfram konur er ekki gott slagorð ef það er skilyrt: Fyrir sumar konur og bara stundum.
Dagurinn kom upp á föstudegi sem er einmitt fasti pistladagurinn minn. Ég velti fyrir mér hvort að ég ætti að nýta pistilinn þann daginn til að vekja máls á því, enn fokking einu sinni, hvað mætti betur fara í þessu samfélagi. Skrifa enn einn femínska pistilinn. En ég var bara ekki í stuði. Mér finnst baráttudagar kvenna alveg nógu margir, 365 á ári. Ég eyddi deginum í að endurtaka átta klukkustunda heimapróf í verðbréfamarkaðsrétti í von um að hækka einkunnina mína. Enda er planið að verða #bossbitch ofan á allt annað.
Það versta sem hefur komið fyrir Ísland er mýtan um jafnréttisparadísina. Við getum ekki tekið á vandamálunum þegar við göngumst ekki við þeim.