

Konstantín Shcherbak, sem er kjörforeldri, veltir fyrir sér merkingu orðanna „svartur“ og „hvítur“ þegar rætt er um húðlit og hvetur til virðingar og nærgætni í orðanotkun.
Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann veltir fyrir sér merkingu lita í tungumálinu og skrifar:
„Í íslenskri tungu – líkt og í mörgum öðrum tungumálum – eru litir oft tengdir tilfinningum, eiginleikum eða merkingu, bæði í daglegu tali og í bókmenntahefð. Sumir litir hafa fremur stöðuga merkingu, eins og hvítur sem oft táknar hreinleika, sakleysi, frið, heiðarleika eða ljós. Aðrir geta borið andstæðar merkingar, eins og rauður sem táknar ást, en einnig reiði eða hættu. Grænn tengist yfirleitt lífi, vexti og náttúru, en stundum segjum við að einhver sé „grænn af öfund“.
Svartur er líklega sá litur sem hefur minnst jákvæða merkingu. Hann er oft tengdur myrkri, sorg, dauða eða illsku. Við tölum um svartsýni, svartnættið, svartan húmor, svartan galdur – og svartan sauð, sem stendur fyrir þann sem er öðruvísi, afbrigðilegur og oft útskúfaður.“
„„Pabbi, af hverju segja krakkar að ég sé svört?“ spyr dóttir mín á sinni lýtalausu íslensku. „Tja, heh, hérna …“ – Ég er eins og spólandi sumardekk í fyrsta snjónum. „Ég veit það ekki alveg … líklegast eru sögulegar ástæður fyrir því,“ reyni ég að byrja útúrsnúninginn. „Enska tungan er svo sterk í heiminum, og þar er fólk af afrískum uppruna kallað black. „Það er kannski ekki illa meint, og ákveðið stolt fylgir því að tilheyra þeim hópi,“ umla ég áfram. En á sama tíma hugsa ég: Er þetta bara tilviljun að þau með ljósari húð kalli sig white, í andstöðu við hin sem eru black? Gefum við húðlit viljandi aukna merkingu?“
Konstantín telur lýsinguna „hvítur“ og „svartur“ á húðlit fólks óheppilega enda orðin gildishlaðin og lýsa í raun ekki húðlit fólks. Hins vegar elti orðið „svartur“ dóttur hans ásamt þeim neikvæðu hugrenningartengslum sem orðinu fylgja. Hann segir það afar skrýtið í nútímasamfélagi að vilja skilgreina manneskju út frá húðlit. Hann skrifar ennfremur:
„Sem betur fer eru til tungumálasérfræðingar sem vinna að ráðleggingum um æskilega málnotkun. Það væri frábært að heyra þeirra skoðun. Ég vona hins vegar að niðurstaðan verði ekki sú að mælt sé með því að kalla dóttur mína „svarta“. Ég vona innilega ekki.“
Í augum Konstantíns er dóttir hans ekki svört heldur litríka barnið hans sem lýsir upp daginn.