

Karlmaður sem stunginn var í Grindavík aðfararnótt laugardagsins 18. október síðastliðinn á yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa kveikt í leiguíbúð sem hann bjó í Ásbrú. Maðurinn viðurkenndi að hafa lagt eld að eldfimu efni í stundarbrjálæði í íbúðinni á Ásbrú. Eftir að hafa setið nokkra daga í gæsluvarðhaldi vegna málsins var hann heimilislaus. Fékk hann inni hjá fyrrum sambýliskonu sinni og barnsmóður, konunni sem handtekin var vegna stungumálsins þremur mánuðum eftir íkveikjuna.
Hvað varðar nýrra málið, stunguárásina fékk lögregla tilkynningu um hávaða í íbúð í Grindavík. Er lögreglu bar að garði kom í ljós að maðurinn var með stunguáverka og var sjúkralið kallað til. Í tilkynningu sem birt var á vef lögreglunnar sama dag kom fram að maðurinn hefði veitt sér áverkana sjálfur. Í frétt RÚV sem greindi fyrst frá málinu þann 21. október sagði Nanna Lind Stefánsdóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum ekki útilokað að maðurinn hafi orðið fyrir stunguárás. Maðurinn væri í stöðugu ástandi, en án meðvitundar á gjörgæslu.
Fjórum dögum síðar greindi RÚV frá því að maðurinn væri á batavegi, kominn úr lífshættu og búið að taka skýrslu af honum. Kona hefði verið handtekin vegna málsins, skýrsla tekin af henni, en henni síðan verið sleppt úr haldi.
Maðurinn, sem er íslenskur og fæddur árið 1980, hefur verið búsettur um árabil í Grindavík, meðal annars með fyrrum sambýliskonu sinni og tveimur börnum þeirra, sem nú eru komin á fullorðinsár.
Konan sem handtekin var vegna málsins er umrædd fyrrum sambýliskona mannsins og barnsmóðir hans. Samkvæmt heimildum DV höfðu þau verið að skemmta sér fyrr um kvöldið á bar í bænum. Íbúðin sem er vettvangur stunguárásarinnar er íbúð sem konan býr í.
Karlmaðurinn hefur búið hjá henni um nokkurra vikna skeið eftir að hann varð heimilislaus sökum þess að hann kveikti í íbúð sem hann leigði á Ásbrú. Sat maðurinn um stuttan tíma í gæsluvarðhaldi vegna íkveikjunnar, en Landsréttur hafnaði í lok júlí framlengingu á gæsluvarðhaldi.
DV greindi frá íkveikjunni í júlí. Eldsvoði varð í timburhúsi að Grænásbraut í Reykjanesbæ um fjögurleytið að nóttu þann 13. júlí síðastliðinn. Maðurinn sem bjó í íbúðinni var handtekinn á staðnum vegna málsins. Íbúi í húsinu sem ræddi við DV sagði að stórhættulegt ástand hefði skapast en engan hafi sakað. Sagði hann manninn oft hafa sýnt af sér undarlega hegðun og virst eiga við drykkjuvandamál að stríða. Var hann sagður hafa játað fyrir öðrum íbúa að hafa hellt bensíni í búð sinni og tendrað eld.
Var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins til 14. júlí, sem var síðar framlengt til 25. júlí af hálfu Héraðsdóms Reykjaness. Maðurinn skaut þeirri ákvörðun til Landsréttar sem felldi úrskurðinn úr gildi.
Sjá einnig: Maður sagður í haldi lögreglu eftir eldsvoða í Reykjanesbæ – Stórhættulegt ástand skapaðist
Sjá einnig: Er í gæsluvarðhaldi grunaður um íkveikju að Grænásbraut – Sagðist hafa hellt bensíni og kveikt í
Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kom fram að lögreglu barst tilkynning um málið um hálffimmleytið aðfaranótt sunnudagsins 13. júlí. Strax lék grunur á að um íkveikju væri að ræða, en íbúar hússins voru allir komnir út.
Lögreglumenn ræddu við íbúa íbúðarinnar sem var afar ósamvinnuþýður og tók langan tíma að fá hann til að gefa upp persónuupplýsingar.
Maðurinn sagði að mögulega hefði kviknað í gólfi hússins út frá sígarettustubbi. Hann sagðist þó ekki vita hvers vegna gólfið væri eldfimt.
Íbúi annarrar íbúðar fjölbýlishússins sagðist hafa fundið mikla reyklykt og bensínlykt um nóttina og hringt á neyðarlínuna klukkan 04:35. Hann hafi síðan opnað fram á gang, séð manninn, meintan brennuvarg, sem hafi sagt við sig að hann hafi hellt niður bensíni og kveikt í íbúðinni. Maðurinn var eins og áður sagði handtekinn á staðnum og sýndi áfengismælir að hann var undir áhrifum.
Ummerki bentu til íkveikju á tveimur stöðum í íbúð mannsins, annars vegar í stofunni og hins vegar inni á baðherbergi. Búið var að stafla handklæðum í hrúgu inni á baði og bensínlykt verið af þeim. Í stofunni var búið að stafla munum í bálköst og að öllum líkindum hefði bensín verið notað til að kveikja í.
Fyrstu niðurstöður tæknideildar lögreglu voru að um væri að ræða íkveikju af mannavöldum af ásetningi með opnum eldi og eldhvetjandi vökva.
Maðurinn sagðist hafa drukkið rútu af bjór þennan dag og að í stofunni hefði hann geymt bensínsbrúsa fyrir sláttuvél. Sagðist hann hafa sparkað brúsanum og bensín hefði sullast niður. Hann hafi síðan tekið upp kveikjara og lagt við bensínblautt borð í stofunni í stundarbrjálæði í ölvunarástandi. Þá hafi eldur blossað hratt upp og hann haft samband við neyðarlínuna og látið nágranna vita af eldinum.
Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kom fram að til rannsóknar sé hvort að með meintum brotum mannsins hafi hann skapað almannahættu. Það er ef bersýnilegur lífsháski hafi orðið að verknaðinum eða augljós hætta hafi verið á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra manna.