Eftir nokkur ár af fallslag, bæði í Danmörku og Belgíu, tók Freyr Alexandersson skrefið til Noregs í vetur og tók við stórliði Brann. Það hefur gengið vel í Bergen og segir Freyr hafa verið mikilvægt fyrir sinn feril að fara þangað.
„Þetta var það sem ég vildi. Ég tók við Lyngby í 1. deild í Danmörku og það var svipað, en fyrir það var það örugglega með kvennalið Vals (2008-2010) sem ég gat einbeitt mér að þessu hlutum,“ sagði Freyr í Íþróttavikunni á 433.is.
„Ég hafði virkilegan áhuga á að vera í félagi sem spilaði sóknarsinnaðan fótbolta og hafði getu og vilja til að berjast um toppsætin heima fyrir, klúbb sem gæti spilað í Evrópu og Brann er það allt.“
Freyr er nú með lið í toppbaráttu í Noregi og er kominn með einn sigur í tveimur leikjum í deildarkeppni Evrópudeildarinnar. Hann er þó afar þakklátur er hann horfir til baka á tímann með danska liðinu Lyngby og Kortrijk í Belgíu.
„Ég vil samt segja að bæði í Kortrijk og Lyngby var mjög gaman að glíma við það sem við vorum að gera. En núna var tímapunktur þar sem ég vildi sem þjálfari þróa þetta meira, ég veit ekki hversu mörg símtöl ég fékk áður en ég tók við Brann og mér boðið að koma og slökkva einhverja elda.
Ég fann það að ef ég finndi ekki starf yrði ég bara sá þjálfari sem kæmi alltaf inn til að slökkva elda. En nú er ég búinn að komast í þetta umhverfi aftur, sýna fram á að liðið mitt spilar virkilega flottan fótbolta leikmennirnir okkar eru að þróast í mjög góða átt. Ég þurfti á því að halda sem þjálfari og á þessum tímapunkti sem manneskja.“
Ítarlegt viðtal við Frey er í spilaranum og hefst það þegar þátturinn er um það bil hálfnaður.