Vinir mínir eru bandarískir háskólaprófessorar. Köllum þau Joe og Eileen. Svona peysurnar á öxlunum-týpur. Þau koma reglulega til landsins, enda miklir aðdáendur bæði lands og þjóðar. Fyrir ári sátu þau í stofunni hjá mér og Joe stundi þungan og lýsti því hvernig hann væri á barmi þess að gefast upp á kennslunni.
„Þau segja bara aldrei neitt,“ sagði Joe og lýsti því kjökrandi að nemendurnir sem væru snúnir aftur til kennslustunda í kjötheimi eftir Covid-faraldur sætu núna þögul yfir vönduðum fyrirlestrum og í hvert skipti sem hann bæri upp spurningu mætti hann þögninni einni saman. Köldum vegg. Eins og hann væri að flytja leikþátt en ekki að ræða við fróðleiksþyrstan nemendahóp. „Ég held að ein stelpan á fremsta bekk hafi meira að segja reynt að svæpa mig í burtu,“ stundi hann með tárin í augunum.
Aumingja Joe. Eileen var á sama máli, kinkaði kolli og renndi höndunum yfir ljóst, rennislétt hárið. Ég, sjálf háskólanemi, laug að þeim að það væri alls ekki svona á Íslandi. Sókratíska aðferðin væri raunar sprelllifandi í íslenskum háskólum og hér væru allir veifandi höndum og gjammandi; karlar, konur og kvár skiptust brosandi á skoðunum og stækkuðu hugarheim og heimsmynd hvert annars með uppbyggilegum og lifandi rökræðum í kennslustofum landsins. En orðin voru beisk í munni mér. Ég gat ekki horfst í augu við sannleikann. Á þessari stundu var ég lygari.
Raunin er sú að það sem Joe upplifir í Ameríkunni er líka að gerast innan veggja íslenskra háskólastofnana, á hverjum degi. Ég sé þetta með eigin augum. Það versta við þetta allt saman er að mér, ungblóminu, finnst ég vera rosalega gömul þegar ég er eina manneskjan í bekknum sem ber upp spurningu við kennarann eða sýni viðleitni til að taka þátt í umræðum. Það eitt og sér, er sorgarviðburður. Ég, í þessu ótrúlega fína formi, að upplifa mig sem eitthvað skorpið gamalmenni. Svo eru það pískrið og augngoturnar sem ég sé – ég sé þau. Horfandi hvert á annað eins og það sé asnalegt að spyrja kennarann.
Hvað gerist þegar enginn þorir að tala og menntun verður einhliða flutningur í stað samtals? Við erum svo ógeðslega upptekin af ímyndarpólitík að við getum ekki hugsað okkur að opinbera vanþekkingu í míkró-rými á borð við skólastofu, þó að rýmið sé bókstaflega hannað til þess að læra þar inni.
Það var ekki Covid-faraldurinn sem drap Sókrates. Hann dó á meðan við vorum með slökkt á myndavélinni á Zoom.
Ég kom hingað til að læra, en ekki til þess að vera í allt of víðum buxum sem láta mig líta út eins og ég sé á leiðinni á bekkjarkvöld í félagsmiðstöð árið 1998. Þessir magabolir hafa ekki lúkkað síðan TLC tóku upp myndbandið við Waterfalls og það er nógu langt síðan. Hvenær ætlar einhver að segja stopp og hindra þetta gegndarlausa menningarnám Z-kynslóðarinnar, sem hefur viðgengist gagnvart unglingamenningu þúsaldarkynslóðarinnar. Ég get ekki meira af hettupeysum og heilafúa á Tiktok. Ég vil bara fá venjulegar buxur og eðlileg samtöl við kennarana mína til baka.