fbpx
Mánudagur 01.desember 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Sigurður Ingi mun ekki víkja – gildir einu hvað Guðni hamast

Eyjan
Fimmtudaginn 16. október 2025 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það á ekki af Framsókn eða Sigurði Inga að gang þessa dagana. Um helgina verður miðstjórnarfundur haldinn á Hilton Nordica í Reykjavík undir þeim skugga að flokkurinn hefur engan þingmann í Reykjavík eða Kraganum þar sem um 80 prósent landsmanna búar.

Í morgun birtist í Morgunblaðinu grein eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi formann Framsóknar. Í greininni kallar hann ákaft eftir því að Sigurður Ingi láti af embætti formanns. Flokkurinn sé í verri stöðu en nokkru sinni áður í 109 ára sögu hans. Ábyrgðin sé hjá formanninum, sem verði sjálfur að þekkja sinn vitjunartíma.

Guðni nefnir fyrri formenn, Ólaf Jóhannesson, Halldór Ásgrímsson, Jón Sigurðsson og sjálfan sig, sem hafi við erfiðar aðstæður viðurkennt að flokkurinn er merkilegri en þeir sjálfir. Orðið á götunni er að aldrei hafi sitjandi formaður í stjórnmálaflokki fengið harðari gagnrýni frá fyrri formanni en Sigurður Ingi frá Guðna. Og þetta er ekki í fyrsta eða annað sinn sem Guðni beinir spjótum sínum að formanni Framsóknar á opinberum vettvangi. Hver veit svo hvaða lóð hann hefur lagt á vogarskálar í minni hópum og einkasamtölum?

Orðið á götunni er að óhugsandi væri í nokkrum öðrum flokki að fyrrverandi formaður færi af slíkri hörku gegn sitjandi formanni. Gersamlega óhugsandi væri að Geir H. Haarde eða Bjarni Benediktsson kölluðu ítrekað eftir afsögn Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem er þó með flokk sinn í verstu stöðu frá því að hann var stofnaður. Meira að segja Davíð Oddsson kallaði aldrei eftir því að Bjarni Benediktsson tæki pokann sinn og kallar hann þó ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að gagnrýna aðra.

Orðið á götunni er að ástandið í Framsókn minni nú helst á það þegar allt logaði stafna í milli í flokknum er deildu Jónas frá Hriflu annars vegar og Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson hins vegar. Svo fór að Hriflu Jónas var felldur og Hermann tók við.

Orðið á götunni er að ákefð Guðna í að koma Sigurði Inga úr formannsstólnum stafi af því að honum sé mikið kappsmál að Lilja Alfreðsdóttir taki við flokknum. Ekki stendur Guðni einn í því vegna þess að Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri í Skagafirði, hefur einnig talað eindregið fyrir því að Lilja verði kjörinn formaður. Guðni er mjög handgenginn Þórólfi og segja má að taugin milli þeirra sé römm.

Orðið á götunni er að gömlu mennirnir, Guðni og Þórólfur, séu hins vegar nokkuð einangraðir í þeirri skoðun sinni að Lilja geti orðið bjargvættur fallandi Framsóknar. Í innsta kjarna flokksins er nánast enginn áhugi á Lilju sem formanni. Rétt eins og Sigurður Ingi sat Lilja, sem nú gegnir varaformennsku í flokknum, í síðustu ríkisstjórn sem kjósendur höfnuðu svo eftirminnilega í kosningunum 30. nóvember á síðasta ári. Hún ber því sömu ábyrgð á afhroði Framsóknar í síðustu kosningum og formaðurinn. Þá var Lilju hafnað með svo afgerandi hætti að hún féll af þingi í kosningunum.

Orðið á götunni er að Framsóknarmenn séu þess mjög meðvitaðir að nánast er ógjörningur fyrir flokksformann í stjórnarandstöðu að leiða flokk sinn eigi hann ekki sæti á Alþingi. Það er á Alþingi sem umræðan fer fram. Þar fer stjórnarandstaðan fram en ekki á einhverri flokksskrifstofu úti í bæ. Formaður sem situr ekki á þingi er því utan gátta.

Orðið á götunni er að Sigurður Ingi sé staðráðinn í að gefa ekki eftir formennskuna í Framsókn. Hann hefur verið áberandi að undanförnu og framganga hans er ekki framganga manns sem er búinn að leggja árar í bát. Sigurður Ingi veit sem er að stuðningur við Lilju er lítill og engar líkur á að hann verði felldur af stalli kjósi hann sjálfur að halda áfram. Sigurður Ingi er 63 ára og við góða heilsu og á því mörg góð ár eftir. Líklegt er að hann leiði Framsókn út þetta kjörtímabil og jafnvel lengur.

Guðni setur fram fyrripart ferskeytlu eftir séra Jón Þorláksson og líkir við ástandið í Framsókn nú:

Tunnan valt og úr henni allt
ofan í djúpa keldu.

Orðið á götunni er að Guðni hefði betur hugað að seinnipartinum sem er svona:

Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Björg Magnúsdóttir: Pólitík ekki fyrir þá sem vilja bara þægilega innivinnu

Björg Magnúsdóttir: Pólitík ekki fyrir þá sem vilja bara þægilega innivinnu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Verðbólga fírast niður en vextir næst ákveðnir eftir rúma tvo mánuði

Verðbólga fírast niður en vextir næst ákveðnir eftir rúma tvo mánuði
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindi fatlaðra er ruslatunna stjórnmálanna

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindi fatlaðra er ruslatunna stjórnmálanna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Gagnrýni á falsfréttir Morgunblaðsins nú réttmæt – aðförin að eigendum Fréttablaðsins var það ekki

Orðið á götunni: Gagnrýni á falsfréttir Morgunblaðsins nú réttmæt – aðförin að eigendum Fréttablaðsins var það ekki
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Mikilvægasti samningur Íslandssögunnar

Sigmundur Ernir skrifar: Mikilvægasti samningur Íslandssögunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason

Óttar Guðmundsson skrifar: Ungmennafélagsandinn og Einar Kárason
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún gagnrýnir að til skoðunar sé að rukka Bláa lónið og fleiri fyrir varnargarðana – „Það eru kaldar kveðjur“

Guðrún gagnrýnir að til skoðunar sé að rukka Bláa lónið og fleiri fyrir varnargarðana – „Það eru kaldar kveðjur“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd