Christa var aðeins átján ára gömul þegar hún var dæmd til dauða fyrir morð á skólasystur sinni, Colleen Slemmer, sem var einu ári eldri en hún.
Annar maður, hinn sautján ára Tadaryl Shipp, var einnig dæmdur fyrir morðið á Colleen en hann fékk öllu vægari dóm, eða lífstíðarfangelsi með möguleika á reynslulausn. Christa og Shipp voru kærustupar og taldi Christa að Slemmer væri að reyna að stela honum af henni.
Morðið var sérlega hrottafengið en Christa og Shipp beittu Slemmer pyntingum í meira en eina klukkustund. Beittu þau meðal annars hnífi en banamein Slemmer var þungt höfuðhögg eftir að Christa barði hana með grjóti. Þegar hún yfirgaf vettvang morðsins tók hún brot úr höfuðkúpu fórnarlambsins með sér.
Christa komst einnig í kast við lögin innan veggja fangelsisins því árið 2004 fékk hún 25 ára dóm fyrir morðtilraun eftir að hafa reynt að kyrkja samfanga sinn með skóreim.
Lögmenn hennar reyndu á sínum tíma að fá kviðdómendur til að sýna henni miskunn í ljósi þess að hún var aðeins 18 ára þegar morðið var framið. Þá bentu þeir á að hún hefði glímt við geðræn veikindi og orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku.
Verjendur hennar hafa sótt það stíft að fá dómi hennar breytt í lífstíðarfangelsi, og eftir að væntanlegur dánardagur hennar var tilkynntur sendu þeir frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að Christa væri á allt öðrum og betri stað í dag.
Hún hefði greinst með geðhvarfasýki nokkrum árum eftir að hún var handtekin og fengið viðeigandi meðferð við veikindunum. Hún sjái í dag mikið eftir gjörðum sínum og sé fyrirmyndarfangi að öllu leyti.