Lorenz mætti í viðtal við WRGB-sjónvarpsstöðina á dögunum þar sem hann játaði berum orðum að hafa myrt foreldra sína. Hann var handtekinn skömmu eftir að viðtalið var sýnt en þegar hann kom fyrir dóm á föstudag neitaði hann sök.
Áður en að viðtalinu kom hafði lögregla hafið rannsókn á hvarfi foreldra Lorenz. Þau voru enn að fá eftirlaunagreiðslur þó að ekkert hefði spurst til þeirra árum saman og það þótti grunsamlegt í meira lagi.
Lögregla framkvæmdi loks húsleit á heimili foreldranna í Albany í New York-ríki og varð það til þess að lík þeirra fundust grafin í garðinum.
Eftir að líkin fundust var fjallað í staðarmiðlum og óskaði Lorenz sjálfur eftir því að koma í viðtal til að lýsa sinni hlið á málinu. Til að byrja með var hann tregur til að lýsa aðkomunni að dauða foreldra sinna en þegar leið á viðtalið kom meira og meira fram í dagsljósið.
Lorenz sagðist hafa drepið foreldra sína þar sem þau glímdu bæði við alvarlegan heilsubrest. Viðurkenndi hann að hafa kæft þau á heimili þeirra og komið líkunum svo fyrir í garðinum. Þegar hann var spurður sagði hann að foreldrar hans hafi ekki beinlínis beðið um að deyja en hann hafi litið svo á að hann væri að gera þeim greiða.
Verjandi Lorenz segir að umrætt viðtal hafi ekkert vægi í málinu og það mætti líkja því við þvingaða játningu.