Stjarna Paris Saint-Germain og landsliðsmaður Marokkó, Achraf Hakimi, hefur tjáð sig opinberlega í fyrsta sinn eftir að hann var formlega ákærður fyrir kynferðisbrot í Frakklandi.
Franska ákæruvaldið hefur nú óskað eftir því að málið fari fyrir dómstóla, en Hakimi var fyrst ákærður 3. mars 2023 vegna nauðgunar og var látinn laus gegn tryggingu undir eftirliti lögreglu. Atvikið átti að hafa átt sér stað 25. febrúar 2023.
Samkvæmt Le Parisien sagðist 24 ára kona hafa hitt Hakimi í gegnum Instagram í janúar 2023 og að hann hafi pantað fyrir hana Uber að heimili sínu í Boulogne-Billancourt. Þar kveðst hún hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti og síðar nauðgun, þrátt fyrir mótmæli hennar.
Hakimi neitar alfarið sök og sagði í viðtali við Canal+ í Frakklandi: „Þetta er það erfiðasta sem ég hef upplifað. Mesta höggið sem ég hef fengið.“
„Það er erfitt fyrir fjölskylduna mína og börnin mín. Þau eru ung og skilja ekki hvað er verið að skrifa. En einn daginn munu þau lesa þetta og það særir mig, sérstaklega þegar þetta eru lygar.“
Ef Hakimi verður sakfelldur, gæti hann átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsisdóm. Hann bætir við: „Ég veit að ég hef ekki gert neitt. Ég lagði sjálfur til að tala við lögregluna og gaf þeim allt sem þeir þurftu, þar með talið DNA. Ég er rólegur og treysti á réttlætið.“