Freyr Alexandersson er að gera frábæra hluti með Brann. Landsliðsmaðurinn Sævar Atli Magnússon leikur undir hans stjórn og kann afar vel við það.
Freyr fékk Sævar til sín öðru sinni á ferlinum í sumar. Hann fékk Breiðhyltinginn til Lyngby 2021 og svo þaðan á frjálsri sölu til Noregs í sumar. Íslendingaliðið, sem inniheldur einnig Eggert Aron Magnússon, er í toppbaráttunni í Noregi og komið í deildarkeppni Evrópudeildarinnar.
„Hann er búinn að gera mjög vel, halda í leikstíl liðsins og gera hann enn skemmtilegri. Við pressum mikið og eins og á móti Lille þá vorum við bara að reyna að halda í boltann á útivelli. Hann er að skapa geðveika stemningu í kringum liðið,“ sagði Sævar í Íþróttavikunni hér á 433.is.
„Það er ótrúlega gaman að spila fyrir hann og aðstoðarþjálfarann. Ég veit fyrir hvað hann stendur, sem er ótrúlega mikilvægt fyrir mig. Ég vil vera í þannig umverfi að liðið komi fyrst og hann stendur fyrir það. Það er mjög góður æfingakúltur og geggjað að vinna aftur með honum.“