Dómsmálaráðuneytið hefur auglýst embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum laust til umsóknar, en auglýsingin birtist í Lögbirtingablaðinu í dag. Það vakti mikla athygli í vor þegar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti þáverandi lögreglustjóra, Úlfari Lúðvíkssyni, að embættið yrði auglýst en skipunartími hans var þá að renna út. Þorbjörg vísaði til fyrirhugaðra breytinga á landamæravörslu.
Úlfar túlkaði útspil ráðherra sem brottrekstur og sagði þetta kaldar kveðjur. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu málið harðlega og töldu að ráðherra væri að refsa Úlfari fyrir að tala tæpitungulaust um stöðuna á landamærunum.
Nú hefur embættið loks verið auglýst en í auglýsingu segir:
„Auglýst er laust til umsóknar embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Leitað er að öflugum og framsýnum leiðtoga sem er umbótadrifinn og hefur kraft til þess að móta og efla innri og ytri starfsemi embættisins.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fer með stjórn lögregluliðs í sínu umdæmi. Hann annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og ber ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum á sæti í lögregluráði, sem hefur það hlutverk að efla samráð á meðal lögreglustjóra og samhæfa störf lögreglu.
Áform eru um að setja heildarlöggjöf um brottfararstöð til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Schengen-samstarfinu. Samhliða eru áform um breytingar á lögum um útlendinga sem varða m.a. hlutverk embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum þegar kemur að eftirliti á ytri landamærum.
Umsækjendur skulu fullnægja skilyrðum 2. mgr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.“
Aðrar hæfniskröfur eru svo eftirfarandi:
Nýr lögreglustjóri verður skipaður til 5 ára í senn en miðað er við að skipað verði í embættið frá og með 1. desember næst komandi.