Fram kom á fundi framkvæmda-, hafna og veitunefndar Fjallabyggðar í upphafi vikunnar að erfiðleikar í rekstri hafnarinnar í sveitarfélaginu fari vaxandi. Tekjur fara minnkandi á meðan kostnaður eykst. Kom einnig fram að það stefni í enn frekari samdrátt í tekjum þar sem bókunum skemmtiferðaskipa fer fækkandi.
Í fundargerð fundarins kemur fram að hafnarstjóri hafi lagt fram vinnuskjal um tímabundið fyrirkomulag starfsmannahalds við höfnina. Rekstrarafkoma hafnarinnar hafi versnað verulega á síðustu árum, tekjur hafi dregist saman á sama tíma og kostnaður hafi aukist. Rekstrarafkoma ársins 2024 hafi verið aðeins um 20 prósent af því sem hún var árið 2019. Gera megi ráð fyrir enn meiri samdrætti á næstu árum standist sú áætlun að komum skemmtiferðaskipa muni fækka um 65-70 prósent á milli áranna 2025 og 2026.
Bókanir
Í samantektinni segir meðal annars að bókanir skemmtiferðaskipa í íslenskum höfnum fyrir næsta ár séu eins og staðan er í dag 17 prósent færri á næsta ári en síðasta ári og 37 prósent færri fyrir árið 2027. Bókanir voru 1.209 á síðasta ári, lítillega færri í ár en 1.001 á næsta ári og 764 fyrir árið 2027. Segir enn fremur að samdráttur verði í öllum höfnum en þó verði hann hlutfallslega mestur í minni höfnum á landsbyggðinni.
Í samantektinni er þessi samdráttur rakinn einkum til afnáms tollfrelsis og innviðagjalds á skemmtiferðaskip, sem samþykkt var á Alþingi í nóvember á síðasta ári og tók gildi um áramótin, en fram kemur að þessi stutti fyrirvari á gjaldtökunni eigi sinn þátt í fækkun bókana. Loks er vísað til almennrar óvissu með fyrirkomulag á rekstri skemmtiferðaskipa við Íslandsstrendur en það er ekki skýrt nánar.
Í Fjallabyggð eru tvær hafnir önnur á Ólafsfirði en hin á Siglufirði en skemmtiferðaskip hafa komið í síðarnefndu höfnina. Samkvæmt samantektinni voru komur skemmtiferðaskipa 27 á síðasta ári, verða alls 32 á þessu ári en á næsta ári eru aðeins bókaðar 10 komur og 8 árið 2027. Samdrátturinn á næsta ári yrði því rétt undir 69 prósent, frá þessu ári, og 75 prósent árið 2027.
Þetta mun hafa í för með sér tilheyrandi samdrátt í tekjum Fjallabyggðarhafnar. Í bókun á fundi sínum í byrjun vikunnar lýsti framkvæmda-, hafna- og veitunefnd yfir miklum áhyggjum af fækkun komu skemmtiferðaskipa á næstu árum og fól hafnarstjóra að leita leiða til þess að mæta verulegri lækkun tekna hafnarinnar af þeim sökum.