Félagarnir Jón G. Hauksson og Sigurður Már Jónsson ræða fjárlagafrumvarpið í nýjasta Hluthafaspjallinu. Báknið heldur áfram að blása út og segja þeir það vonbrigði að ríkisútgjöld hækki um 123 milljarða á næsta ári, sem og að hækka á skatta á fólk og fyrirtæki um 28 milljarða. Vandamálið sem blasi við sé að við búum við verðbólgu og háa vexti á sama tíma og það sé enginn hagvöxtur. Hagvöxtur hafi verið neikvæður á fimm ársfjórðungum af síðustu sjö eða allt frá fjórða ársfjórðungi á árinu 2023. Helsta markmið ríkisstjórnarflokkanna í síðustu kosningum var að ná niður verðbólgu (sleggjan) og þar með vöxtum. Ef það er enn helsta markmiðið þá fari illa saman að Seðlabankinn (peningastefnan) sé á bremsunni með háa vexti á meðan ríkisstjórnin (fjárlagastefnan, ríkisfjármálin) sé á bensíngjöfinni og auki ríkisútgjöldin.
„Við höfum náttúrulega rætt um það að hagvöxturinn er nánast enginn og það eru auðvitað hagvaxtarforsendur í fjárlagafrumvarpinu, tekjumegin. Virðisaukaskatturinn streymir inn vegna aukins hagvaxtar. Það má efast um að það sé raunhæft,“ seir Sigurður.
Jón bregður upp grafi sem sýnir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026.
„Þetta er svolítið magnað. Þarna sjáum við hvernig skattheimtan er. Þarna sjáum við sem sagt að virðisaukaskatturinn á að skila 466 milljörðum eða 33% allra tekna á meðan að tekjuskattur skilar 304 milljörðum eða 22% af öllum skatttekjum ríkisins. Og ég vek bara athygli á því að þarna er gert ráð fyrir sem sagt að virðisaukaskattur hækki á milli ára og það er meðal annars vegna þess að það eigi að vera vegna aukinna umsvifa. Virðisaukaskattur eykst með auknum umsvifum í samfélaginu. Þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir ríkið og fjármálaráðherra, fjármálaráðherra sest niður og spyr hvar get ég fengið tekjur? Verður mjög gráðugur í því að hækka hér og hækka hér. Hann er allt í einu farinn að verða forstjóri fyrirtækis sem heldur að hann geti bara hækkað hér og hér.“
Jón segir að ætti að lækka skatta, fá meiri veltu og þannig aukast skatttekjur.
Sigurður bendir á stöðuna í Bretlandi og hækkun skatta í stjórn Verkamannaflokksins. Hann segir erfitt að horfa upp á Bretland núna með þennan mikla samdrátt og samfélagslegu óeiningu sem þar er.
Jón bregður upp öðru grafi sem sýnir að hækka eigi tekjur af ökutækjum og eldsneyti um 7,5 milljarða.
„Þetta er að breytast yfir í skattaspjall,“ segir Sigurður.
Jón svarar því til að ef það er eitthvað sem stjórnendur fyrirtækja hugsa um og hluthafar í fyrirtækjum þá sé það fyrst og fremst hvort verið er að auka álögur á einstaklinga. Það leiði til minni kaupgteu hjá fyrirtækjunum.
„Og ef er verið að auka álögur á fyrirtæki þá eru þau í minna í stakk búin til þess að fjárfesta, fara í þróunarkostnað, rannsóknir og markaðsherferðir og fleira.“
Jón bregður upp þriðja grafinu sem sýnir bankaskattinn.
„Það er viðtal við Heiðrúnu Jónsdóttur sem er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu og þar segir Heiðrún einfaldlega: „Þetta er með ólíkindum.“ Þessi tala, 23,7 milljarðar fyrir árið 2026 var 21 milljarður fyrir þetta ár. Þannig að þarna er ríkið að herja enn og aftur. Það er búið að selja Íslandsbanka en það er að herja á bankana með auknum bankaskatti og þetta eru sérskattar sem eru lagðir á bankana. Þetta er fyrir utan hagnað, þetta er fyrir utan tryggingagjöldin, þetta er fyrir utan þessa hefðbundnu skatta sem eru lagðir á öll fyrirtæki.“
„Þetta eru veiðigjöld bankakerfisins,“ segir Sigurður.
„Þessir sértæku skattar eru mjög sérstakir og koma kannski í veg fyrir það að vaxtamunurinn minnki,“ segir Jón.