Birna Daníelsdóttir hlýtur Sólfaxa – íslensku barnabókaverðlaunin 2025
Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin eru veitt fyrir handrit að myndríkri bók. Samkeppnin er nafnlaus og senda þátttakendur gögn því inn undir dulnefni. Metþátttaka var í keppninni en á fjórða tug handrita bárust og ljóst að mikil gróska er í íslenskri myndabóka- og teiknimyndasögugerð. Eftir að hafa farið vel yfir öll keppnisgögn var dómnefnd sammála um að Ég bý í risalandi eftir Birnu Daníelsdóttur bæri af. Hlýtur hún því Sólfaxa – íslensku barnabókaverðlaunin 2025.
Í umsögn dómnefndar segir:
Ég bý í risalandi eftir Birnu Daníelsdóttur er einstaklega falleg bók um vandræðin sem fylgja því að vera lítill í veröld sem sniðin er að fullorðnu fólki en líka um allt það stórfenglega sem kemur í ljós þegar horft er á heiminn úr tæplega eins metra hæð. Myndir og texti hjálpast að við að segja söguna og fanga á frumlegan og frjóan hátt sjónarhorn barnsins, hugarheim þess og ímyndunarafl. Myndirnar eru unnar á fjölbreyttan hátt: málaðar með gvassi, vatnslitum og bleki, teiknaðar með trélitum, vaxlitum og þurrpastel og loks settar saman með klippimyndatækni. Á þeim má endalaust finna ný og ný smáatriði, hvort sem það er lakkrískonfekt sem hefur gleymst undir sófa eða barnateikningar á óvæntum og jafnvel svolítið óæskilegum stöðum. Ég bý í risalandi er dásamleg bók sem ungir og aldnir hafa án efa gaman af að lesa aftur og aftur.
Birna Daníelsdóttir er fædd árið 1981. Hún er með meistaragráðu í sjávarlíffræði og hefur meðal annars starfað við hvalatalningu og sem sérfræðingur í örverufræði. Árið 2020 lét hún gamlan draum rætast og hóf diplómanám í teikningu við Myndlistaskólann í Reykjavík. Frá útskrift hefur hún starfað sjálfstætt sem myndhöfundur en Ég bý í risalandi er hennar fyrsta bók.
Þetta er í fyrsta sinn sem Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin eru veitt en samkeppnin stendur þó á gömlum grunni. Stofnað var til verðlaunanna árið 1985 undir heitinu Íslensku barnabókaverðlaunin en árið 2024 var eðli þeirra breytt og einungis óskað eftir handritum að myndríkum bókum. Fengu þau af því tilefni nýtt nafn, Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin. Að samkeppninni standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf og Forlagið, sem gefur sigurhandritið út á bók að keppni lokinni. Í dómnefnd sátu Anna Cynthia Leplar, Guðrún Lára Pétursdóttir og Sölvi Sveinsson.