Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins með Diljá Mist Einarsdóttur í broddi fylkingar hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á hegningarlögum. Snúa breytingarnar að því að taka af öll tvímæli um að leyfilegt sé að dæma fólk í 20 ára fangelsi, þar á meðal fyrir manndráp. Er í greinargerð með frumvarpinu sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar í svokölluðu Rauðagerðismáli þar sem maður var myrtur en sá sem hlaut þyngsta dóminn var dæmdur í 20 ára fangelsi í Landsrétti en Hæstiréttur mildaði dóminn í 16 ár.
Rauðagerðismálið snerist í stuttu máli um morð á manni að nafni Armando Beqiri sem var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt við Rauðagerði í Reykjavík í febrúar 2021. Fjórir einstaklingar hlutu fangelsisdóm fyrir aðild sína að morðinu en Hæstiréttur mildaði alla dómana í júní 2023.
Sá sem hlaut þyngsta dóminn var Angjelin Sterkaj. Hann var í Landsrétti dæmdur í 20 ára fangelsi en Hæstiréttur mildaði það niður í 16 ár. Í dómi Hæstaréttar segir að samkvæmt hegningarlögum megi dæma menn í ævilangt fangelsi eða í tiltekinn tíma, ekki skemur en 30 daga og ekki lengur en 16 ár. Á öðrum stað í lögunum segi hins vegar að heimili lög aukna refsingu við broti skuli þessi takmörk ekki vera því til fyrirstöðu að dæma megi menn í allt að 20 ára fangelsi.
Hæstiréttur segir hins vegar að síðarnefnda ákvæðið hafi verið skýrt þannig að það eigi aðeins við um lagaákvæði sem heimili refsingu umfram almenn refsimörk og eftir atvikum sérrefsimörk einstakra hegningarlagaákvæða. Nefnir rétturinn dæmi um nokkur brot sem þetta eigi við um en manndráp sé ekki þar á meðal og það sé því ekki heimilt samkvæmt hegningarlögum að dæma fólk, fyrir slík brot, tímabundið í fangelsi lengur en sem nemur 16 árum. Heimild til að dæma fólk í ævilangt fangelsi veiti ein og sér heldur ekki heimild til að dæma fólk í þymgri tímabundna refsingu en 16 ára fangelsi.
Samkvæmt frumvarpi Sjálfstæðismanna fellur síðarnefnda ákvæðið í hegningarlögum brott en fyrrnefnda ákvæðinu breytt þannig að hámarkslengd tímabundins fangelsisdóms verði 20 ár í stað 16.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmiðið með frumvarpinu sé að taka af öll tvímæli um að heimilt sé að dæma menn til tímabundins 20 ára fangelsis fyrir einstakt brot.
Segir enn fremur í greinargerðinni að þá sé til þess að líta að heimilt sé samkvæmt lögum að veita föngum reynslulausn þegar helmingur refsitímans sé liðinn, jafnvel þótt þeir afpláni refsingu fyrir alvarlegt brot. Mun skemmri tími geti hins vegar liðið þar til fangar sem afplána refsingu fyrir alvarlegt brot geti færst yfir í opin úrræði, auk þess sem frelsi þeirra meðal annars til dagsleyfa og jafnvel lengri leyfa geti aukist mjög.
Nokkra athygli vakti einmitt nýlega þegar DV greindi frá því að áðunrnefndur Angelin Sterkaj, sem hlaut 16 ára dóm, hefði fengið leyfi til að gifta sig í Grundarfjarðarkirkju, fjórum árum eftir morðið í Rauðagerði.
Angjelin Sterkaj gifti sig í Grundarfjarðarkirkju – Afplánar dóm fyrir morðið í Rauðagerði
Sjálfstæðismenn bæta loks við í sinni greinargerð að samkvæmt almennum hegningarlögum sé markmið refsingar fyrst og fremst að vernda almennt réttaröryggi og viðhalda lögbundnu þjóðskipulagi. Þá sé markmiðið líka að fullnægja réttlætistilfinningu almennings sem vilji ekki sætta sig við að ekki sé refsað fyrir skerðingu á mikilvægum réttindum annarra. Hávær umræða hafi skapast um hvort refsingar hérlendis séu mögulega full vægar fyrir alvarlegustu afbrotin sem framin séu, þar með talið fyrir manndráp. Sé hliðsjón þá meðal annars höfð af þeim slaka sem fullnusta refsinga geti falið í sér, þar á meðal frelsi og reynslulausn fanga – jafnvel þeirra sem hafi framið alvarleg brot.
Segir að lokum í greinargerðinni að þar sem markmið hegningarlaga hafi verið að heimilt sé að dæma menn í fangelsi allt að ævilangt og tímabundið allt að 20 ár sé mikilvægt að taka af öll tvímæli um þetta með breytingu á lögunum, með hliðsjón af þessum dómi Hæstaréttar í Rauðagerðismálinu.