Steindór fór af stað með samtökin eftir að hafa sett inn stöðufærslu á Facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa.
„Ég setti inn minningarorð þar sem ég gagnrýndi kerfið aðeins í sömu færslu. Í kjölfarið fór fólk að hafa samband við mig með sínar sögur auk þess að þakka mér fyrir að segja allt sem það þorði ekki að segja,“ segir hann.
Steindór segir að hann hafi vitað að ástandið væri slæmt en óraði ekki fyrir hversu slæmt það væri fyrr en hann fór að fá allar þessar sögur frá fólki.
„Fólk þarf ekki rándýra mælistiku á einhverri sætri heimasíðu, það þarf aðgerðir í kerfinu,“ segir hann.
Steindór vill umræðu, samtal við fólkið sem stjórnar peningunum og ræður landinu.
„Það þarf ekki vitundarvakningu hjá fólkinu í landinu, það þarf vitundarvakningu hjá fólkinu sem situr í ráðherrastólum og stjórnendastöðum í þessu landi,“ segir hann.
Hann vill tala við manneskjuna á bakvið ráðherrann. Hann segist forvitinn að vita hvort embættið afmennski fólk eða hvort fólk í þessum embættum hafi yfir höfuð ekki áhuga á þessum málefnum.
„Mig langar að skora á Kastljósið að bjóða mér og Ölmu Möller að ræða málin á málefnalegan hátt,“ segir hann.
Steindór segir að STRAX í dag muni leggja áherslu á málefnalega umræðu og að önnur umræða í samfélaginu muni ekki blandast í þessi mál.
„Við viljum að allir byrji strax í dag á því að spyrja sig, finnst mér þetta í lagi? Ef ekki, gerum þá eitthvað.“
www.straxidag.is mun formlega opna næstkomandi miðvikudag með öllum helstu upplýsingum um samtökin, næstu skref og skráningu í félagið.