fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
Fókus

Sveindís hitti loks líffræðilega móður sína þegar hún var kistulögð –„Þegar ég horfði niður í kistuna sá ég sjálfa mig“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 14. september 2025 10:30

Sveindís með fjölskylduhundinum Garpi. Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lífshlaup Sveindísar Önnu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Stendur starfsendurhæfingar, er á margan hátt einstakt og varðað mögnuðum tilviljunum og óvæntum tengingum. Sú staðreynd að hún er ættleidd er aðeins brot af þeim vefnaði sem lífsaga hennar er, en um leið rauður þráður í gegnum hana.

Sveindís kynntist líffræðilegri móður sinni aldrei, það var hennar ákvörðun, sem hún rekur og skýrir í þessu viðtali. En sagan byrjar ekki þar heldur á fóstri og ættleiðingu annarrar stúlku, nokkrum árum áður en Sveindís fæddist.

Um miðja síðustu öld hóf Reykjavíkurborg rekstur vistheimilis fyrir börn úr erfiðum fjölskylduaðstæðum, að Silungapolli, skammt frá Suðurlandsvegi, í nágrenni Reykjavíkur. Sum börnin sem þar voru vistuð eignuðust fósturforeldra. Einhvern tíma á seinni hluta sjöunda áratugarins komu þangað hjónin Ellen Marie Sveins og Jóhann Svavar Helgason, ásamt unglingsdóttur sinni, Þorbjörgu Rósu Jóhannsdóttur.

Hjónin, sem voru á fertugsaldri, leituðust eftir því að stækka fjölskylduna, en svo virðist sem þeim hafi ekki orðið frekari barna auðið, þ.e. með líffræðilegum hætti. Þau komu á Silungapoll til að vitja um tvo bræður sem vantaði heimili. Í garðinum fyrir utan kom lítil stúlka hlaupandi á móti þeim og sagði við dótturina, Þorbjörgu: „Viltu ýta mér?“ Þorbjörg fór með stúlkunni að rólu í garðinum og ýtti henni á meðan foreldrar hennar settust til viðtals hjá forstöðumanni heimilisins. Þar var þeim tjáð að mál bræðranna væru giftusamlega leyst.

Hins vegar væri lítil stúlka sem vantaði fósturheimili. Við getum gert okkur í hugarlund að forstöðumaðurinn og hjónin hafi litið út um gluggann á stúlkurnar tvær við róluna. Sú sem sat í rólunni heitir Guðrún Ásta Lárusdóttir og er uppeldissystir Sveindísar, sem þarna var ekki fædd. Hin stúlkan var eina líffræðilega dóttir hjónanna, Þorbjörg. Já, þetta eru systur hennar Sveindísar nokkrum misserum áður en hún fæddist. Og í vændum var farsæl stækkun þessarar gæfufjölskyldu. Vorið 1969 bættist þriðja dóttirin við, það var með enn óvenjulegri hætti.

Auglýsing í blaði

Ellen Marie þráði stóra fjölskyldu enda hafði hún alist upp móðurlaus. Jóhann eiginmaður hennar var sama sinnis. Núna áttu þær tvær stúlkur en ríkidæmið átti eftir að aukast.

Það var einhvern tíma síðla árs 1968 sem ein besta vinkona Ellenar, hún Magga, hringdi í Ellen og sagði: „Ertu búin að sjá augýsinguna í blaðinu?“

„Hvaða auglýsingu?“ spurði Ellen.

Magga sagði henni frá verðandi móður sem auglýsti eftir fósturforeldrum að ófæddu barni hennar. Tilhugsunin heillaði bæði Ellen og eiginmann hennar, Jóhann. Ellen lýsti þessu löngu síðar svona fyrir Sveindísi: „Ég fann blaðið og sagði við Möggu, ég ætla að sýna honum Jóa þetta. Ég sýndi honum pabba þínum þetta þegar hann kom heim og hann varð bara alveg veikur og sagði: Hugsaðu þér, Ellen, þarna myndum við fá nýfætt barn og þriðja barnið okkar!“

Sveindís segir: „Þetta er forsagan mín. Ég er þetta ófædda barn í auglýsingunni í blaðinu.“

Hin verðandi móðir fór fram á skriflegar umsóknir um að taka barnið í fóstur. Sveindís útskýrir að kerfið hafi virkað þannig á þessum tíma að ef barn var tekið í varanlegt fóstur var miðað við 16 ára aldur sem þá var sjálfræðisaldur. Hún segir að foreldrar hennar hafi tekið þá ákvörðun að fá „Möggu, vinkonu mömmu, til að aðstoða við að skrifa bréfið, af því hún var svo vel menntuð, hún var kennari,“ og rifjar upp lotningu alþýðufólks fyrir langskólamenntun á þessum tíma, sem þá var ekki jafn almenn og nú tíðkast.

Skemmst er frá því að segja að móðirin verðandi, Borghildur Júlíusdóttir, valdi þau hjón sem fósturforeldra barnsins síns. Í kjölfar þess kom barnavernd að málum og tók út heimilið. Allt var klappað og klárt þegar stóri dagurinn rann upp. Þau hjónin fóru saman á fæðingarheimið til Borghildar, litla stelpan Guðrún Ásta beið heima, en eldri systirin, Þorbjörg Rósa, fór með þeim. Hún var 17 ára og ólétt, síðla þetta sama ár fæddi hún systurson Sveindísar, Jóhann Hemming Grétarsson.

Það er ein af mörgum sérkennilegum tilviljunum í lífi Sveindísar að andlát föður hennar bar upp á sömu dagsetningu og fæðingardag systursonar hennar. Systursonurinn Jóhann Hemming Grétarsson fæddist 23. desember árið 1969 en faðir Sveindísar, Jóhann Svavar Helgason, lést 23. desember árið 2012.

Sveindís fæddist á Fæðingarheimili Reykjavíkur þann 15. apríl 1969. Skömmu áður fékk Ellen, móðir hennar, símtal frá Borghildi sem lét vita að hún væri að fara á  fæðingarheimilið.

Ung var ég ætluð Guðna

„Pabbi og mamma fóru á fæðingarheimilið og biðu frammi á meðan móðirin var að fæða barnið. Síðan fengu þau mig bara í fangið, það var komin stúlka. Þau voru búin að eignast þriðju stúlkuna og á skömmum tíma voru þau búin að stækka fjölskylduna um heilan helling eins og alltaf hafði verið draumurinn. En mæður fóru ekki heim samdægurs eða daginn eftir með nýfædd börn eins og tíðkast í dag. Í tæpa viku lá Borghildur á fæðingarheimilinu og pabbi og mamma fóru bara heim. Það fyrsta sem mamma gerði eftir þau voru komin heim – þarna voru auðvitað ekki til neinir gemsar – var að hringja í Möggu vinkonu sína og segja: „Magga, það er komin stelpa.“

Þannig var að þessi besta vinkona og nágrannakona mömmu á Ránargötunni, hún Magga, Margrét Thorlacius, eignaðist son þann 26. júní 1968. Þegar Magga fær þessar fréttir þá verður til þessi skemmtilega setning sem hefur fylgt mér alla tíð. Magga sagði: „Jæja, Guðni minn, þá hefur þér verið fædd kærasta.“ Þetta rættist aldrei en okkur fannst báðum pínlegt þegar við uxum úr grasi þegar talað um okkur sem tilvonandi kærustupar.“

Umræddur Guðni er Guðni Thorlacius Jóhannesson, ástsæll forseti lýðveldisins frá 2016 til 2024. Foreldrar hans, Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari í MR, og Margrét Thorlacius, voru nánir vinir fjölskyldu Sveindísar, en Ellen, móðir Sveindísar, og Magga ólust upp í sama fjölbýlishúsi við Ránargötu. Óhætt er að segja að börnunum sem fæddust í þessum nágrannafjölskyldum hafi vegnað vel í lífinu og þau látið gott af sér leiða. Sem fyrr segir voru þær Margrét og Ellen, móðir Sveindísar, afar nánar vinkonur og Margrét mikill örlagavaldur í lífi Sveindísar.

„Þetta var svona fjölskyldudjók,“ segir Sveindís um það tal fullorðna fólksins að spá því að Guðni og Sveindís rugluðu saman reytum þegar þau yxu úr grasi og aldrei kviknaði neitt á milli þeirra í þessa veru. Hún minnist eins sérlega pínlegs atviks þegar hún, líklega um 12 ára aldur, var í heimsókn hjá Möggu og Guðni sonur hennar kom heim og var í prjónapeysu. Magga bað Guðna um að snúa sér í hring og spurði svo: „Hvernig líst þér á?“ Sveindís hélt að hún væri að vísa til peysunnar og sagðist lítast vel á gripinn. Magga  gerði henni svo ljóst að hún væri að tala um son sinn og væri leita eftir skoðunum hennar á honum sem mannsefni.

Sveindís blóðroðnaði og Guðna fannst þetta ekki síður óþægilegt. „Okkur fannst þetta báðum vandræðalegt og þetta varð til þess að ég gat ekki hugsað mér að fara með í heimsókn til Möggu í langan tíma eftir þetta þó að mér líkaði óskaplega vel við hana,“ segir Sveindís.

Jóhannes Sæmundsson íþróttakennari, eiginmaður Möggu og faðir Guðna, lést langt fyrir aldur fram af krabbameini, þann 10. apríl árið 1983. Þetta var fermingardagur Sveindísar. Magga og fjölskylda hennar höfðu þá flutt út á Arnarnes í Garðabænum en fjölskylda Sveindísar bjó í Reykjavík. Sveindís og Jóhann Hemming, systursonur hennar, fermdust sama daginn og veislan var haldin á heimilinu.

„Áður en veislan hófst var dyrabjöllunni hringt. Ég hélt að þetta væri einhver gesturinn að mæta of snemma en fyrir utan dyrnar stóð Magga. Þó að Jóhannes hefði kvatt þennan heim gat Magga ekki hugsað sér að láta fermingardaginn líða án þess að óska okkur heilla og færa okkur frændsystkinum fermingargjafir. Þetta sýnir bara hvað hún Magga var einstök manneskja. Ég man hvað ég hugsaði mikið til Guðna og bræðra hans og hvað mér fannst sorglegt að þeir væru að missa ástkæran föður sinn og Magga að missa manninn sinn. Okkur Jóa frænda þótti andlát Jóhannesar afar sorglegt. En svo stendur ekkjan, Magga, allt í einu fyrir framan okkur og færir okkur gjafir á þessum sorgardegi.“

„Það er mikil og sérstök tenging á milli okkar Möggu. Við tölum enn annað slagið saman í síma í dag þó að mamma sé látin,” segir Sveindís ennfremur en móðir hennar lést árið 2021 eftir gæfuríka ævi. Tveimur árum áður lést líffræðileg móðir hennar og í kjölfarið var ákveðnum hring lokað. Nánar að því hér á eftir.

Fékk að vita sannleikann fimm ára

Sveindís var skráð fósturbarn þeirra Ellenar og Jóhanns þar til skömmu fyrir fermingu. Þá ættleiddu þau hana með samþykki líffræðilegu móður hennar, Borghildar. En hvenær vissi Sveindís að Ellen og Jóhann voru ekki líffræðilegir foreldrar hennar?

„Þau ákváðu að segja mér þetta þegar ég byrjaði í skóla. Ég fór aldrei í leikskóla, bara eins og meirihluti barna á þessum árum, en það voru líka að verki í samfélaginu hugmyndir um bráðger börn og Ásuskóli var afsprengi þeirra. Þangað fór ég fimm ára gömul og ári síðar fór ég fluglæs inn í grunnskóla,“ segir Sveindís sem vill ekki gera mikið úr því að hún hafi verið bráðger.

Foreldrarnir völdu þennan tíma til að forða því að Sveindís heyrði þetta frá öðrum. „Það vissu allir í hverfinu að mamma og pabbi ættu tvö fósturbörn.“ Þau sögðu henni frá því að móðirin sem fæddi hana í heiminn hafi ekki getað haft hana hjá sér. „Þau útskýrðu fyrir mér að ég væri ekkert síður dóttir þeirra þó að ég hefði ekki verið í maganum á mömmu og glæddu mér og systrum mínum smám saman skilning á því að fjölskyldur eru alls konar. Þau sögðu að þau gætu ekki elskað okkur meira þó að við værum þeirra eigin börn. Við Ásta höfum líka aldrei upplifað okkur minna elskaðar en elsta systir okkar.“

Bar út póst til móður sinnar

Sveindís á aðeins góðar minningar um þetta allt saman. En hvernig kynntist hún líffræðilegri móður sinni?

„Svarið er einfalt. Ég kynntist henni aldrei,“ segir hún. Hún hitti vissulega Borghildi en það var bara rúmlega fyrstu tvö æviárin og hún á enga minningu um þau kynni, en á þessum tíma var Borghildur í reglulegum samskiptum við móður hennar, Ellen, sem síðan fjöruðu smám saman út. Hins vegar bar aldrei skugga á samband þeirra né varð nokkurn tíma ósamkomulag um að þau höfðu tekið hana í fóstur og síðan ættleitt hana.

Skemmtileg saga er til af þessu samskiptum sem snertir eina af síðustu heimsóknum Borghildar til Sveindísar. Í þeirri heimsókn færði Borghildur henni kjól. Þegar stóra systir þeirra, Þorbjörg (Obba), kom heim úr vinnunni sagði miðsystirin, Ásta, við hana:

„Obba, veistu, það kom einhver kona hingað í dag og gaf Sveindísi pakka. Og Obba, við fengum ekkert! Við fengum ekkert!“

Sveindís man auðvitað ekkert eftir þessu, var sagt þetta síðar. „Ég á til mynd af mér í þessum kjól frá Borghildi og já, ég er með líka með hálsmenið sem hún gaf mér í skírnargjöf, í þessari myndatöku.“

„Hér er ég í kjól sem Borghildur færði mér og með hálsmenið sem hún gaf mér. Þessi mynd er tekin hjá Lofti ljósmyndara 11. desember 1971 og hafði Borghildur komið skömmu áður í heimsókn.“

Sveindís segir ýmislegt hafa komið í veg fyrir að hún nálgaðist Borghildi, eitt voru óljósar hugmyndir um að hún væri mögulega drykkfelld. „Ég man að þegar ég var að byrja að fá mér í glas með vinkonum mínum á unglingsaldri sagði mamma að ég ætti að fara varlega, maður vissi aldrei þetta með genin. Foreldrar okkar voru bindindisfólk en þó ekki ofstækisfull. Við systurnar erum allar hófdrykkjumanneskjur.“

Sveindís komst síðan að því eftir lát Borghildar að hún hafði aldrei glímt við áfengisvanda en hún bjó hins vegar lengi við kröpp kjör.

„Síðan gerist það að ég fer að vinna hjá póstinum sem unglingur. Þá sé ég nafnið hennar yfir íbúa í blokk í Seljahverfi sem ég var að bera út í. Ég fletti upp í þjóðskrá til að fá staðfest að þetta væri örugglega hún. Fæðingardagurinn stemmdi. Það var annars óvenjulegt með þennan stigagang að þarna voru óvenjumargir skráðir til heimilis sem bjuggu ekki þarna. Voru kannski fluttir burtu og ekki búið að breyta um nöfn á póstkössunum. Það var langmest af óskilapósti í þessum stigagangi og ég fékk þá hugmynd að banka upp á hjá henni og spyrja út í eitthvað af þessum pósti. Spyrja hana kannski hvort ég ætti að skilja póstinn eftir ofan á póstkössunum eða fara með hann til baka.“

Aldrei lét hún þó verða af þessu.

„Ég velti því fyrir mér hvort hún færi út úr húsinu að framan eða aftan. Ef hún ætti bíl færi hún út að framanverðu en ef hún tæki strætó fór hún líklega út um bakdyrnar. Ég var svona að velta þessu fyrir mér en svo risti þetta aldrei nógu djúpt til að ég léti verða af því að reyna að fylgjast með henni. Ég var ung og það var margt annað sem fangaði hugann, gera eitthvað skemmtilegt, hitta vinkonurnar, áhugamálin og þess háttar …“

„Ég var hrædd um að ég myndi opna eitthvert Pandórubox. Ef þarna væri einhver vandi væri ég þá að kalla hann yfir mitt heimili og fjölskyldu? Það var einhver svona ótti sem hélt mér frá henni, því miður, því ég sé eftir því núna.“

„Eftir að Facebook kom þá hafði ég síðuna mína alltaf opna svo hún gæti fylgst með mér ef hún kærði sig um og haft samband. Það gerðist aldrei.“

Aðspurð segist Sveindís hafa skoðað Facebook-síðu Borghildar en aldrei sent henni skilaboð eða reynt að hafa samband með öðrum hætti.

Snjallt útspil prestsins

Árið 2019 lést Borghildur Júlíusdóttir, líffræðileg móðir Sveindísar. Sveindís var þá orðin fimmtug. „Hvað á ég að gera við þetta? spurði ég sjálfa mig. Mér fannst ég þurfa að loka þessu með einhverjum hætti. Ég ákvað þess vegna að ráðfæra mig við prest. Því þó að ég sé félags- og fjölskylduráðgjafi er ég vakandi fyrir því að þegar mál snúa að eigin persónu er maður með blinda bletti, með skerta sýn á stöðuna. Svo ég ákvað að finna út úr því hver væri prestur í þessari jarðarför og kanna landið hjá honum áður en ég gerði eitthvað.

Presturinn reyndist vera Einar Eyjólfsson í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Þetta var presturinn minn! Við hjónin erum skráð í þennan söfnuð og höfum sótt mikið sunnudagaskólastarfið þar með börnunum okkar, hann hefur fermt allar stelpurnar okkar og skírði þá yngstu.“

Einar hvatti Sveindísi eindregið til að vera við jarðarförina en hún fann fyrir mikilli mótstöðu gagnvart því. Vildi það alls ekki.

Ég útskýrði fyrir Einari að ég myndi ekki mæta við jarðarförina. Mér fannst ég ekki eiga neitt erindi þangað, ég þekkti þessa konu ekki. Ég ætlaði ekki að setja mig í þær aðstæður að vita ekki hvernig ég brygðist við á staðnum. Allt inni í mér hrópaði nei.

Fyrir svo utan að jarðarförin var kveðjustund þeirra sem þekktu konuna. Ég vildi ekki trufla fjölskyldu hennar og vini með nærveru minni. Mér fannst það vera hræsni að einhver óvænt dóttir dúkkaði þarna upp án þess að hafa þekkt hana í lifandi lífi. Þannig að þetta kom ekki til greina.“

Sveindís velti því hins vegar fyrir sér að senda samúðarkveðju. „Ég gerði ráð fyrir að hennar fólk vissi að hún hefði eignast barn sem hún lét frá sér. Enda var þetta auglýst í blaðinu á sínum tíma. Ég bar það undir Einar sem sagði jájá, gerðu það. Þannig að ég samdi kveðju og sendi hana.

En Einar gafst ekki auðveldlega upp og spurði hvort það mætti kannski bjóða mér prívat kistulagningu. Það kom upp hugsanavilla hjá mér: Hún var hjá mér þegar ég fæddist, ég get alveg hugsað mér að kveðja hana. En ég hafði auðvitað ekki kvatt hana á dauðastundinni þó ég hafi kvatt við kistuna, þar lá hugsanavillan.“

Kistulagningin var falleg og ógleymanleg stund. „Þegar ég horfði í kistuna sá ég sjálfa mig. Maðurinn minn, sem kom með mér, sagði að nú vissi hann hvernig ég myndi líta út sem gömul kona. Ég er innilega þakklát Einari presti fyrir þessa prívat kistulagningu. Ég á Borghildi lífið sjálft að þakka og þó að ég hafi ekki sett mig í samband við hana bar ég aldrei neinn kala til hennar, enda var mér innrætt að hún hafi gert það besta fyrir mig sem í hennar valdi stóð á sínum tíma. Það var vel búið um Borghildi í kistunni, hún var með sín eigin sængurföt sem voru falleg og greinilega vel að öllu staðið, en Róbert frændi, systursonur Borghildar, sá um undirbúning útfararinnar. Þetta var sérstök stund, ég lagði eina rós í kistuna hjá henni og mér brá eiginlega þegar ég sá líkindin með okkur. Ég hafði séð myndir af henni á Facebook og jú alveg séð smá svip en ekki fundist við neitt nauðalíkar. Að horfa á hana í kistunni var eins og að líta í framtíðarspegil – ég um áttrætt.“

Sveindís vissi fátt um hvernig manneskja líffræðileg móðir hennar var. Frændur Borghildar minntust hennar hins vegar með þessu orðum sem segja sína sögu:

„Hún Borghildur Júlíusdóttir, ömmusystir okkar, var virkilega góð og kærleiksrík kona. Hún var mjög ákveðin, sjálfstæð og sterkur einstaklingur. Hún var alltaf til staðar fyrir okkur bræðurna og bar hag okkar fyrir brjósti. Hún var alltaf bjartsýn og jákvæð, hún kenndi okkur að lífið væri of stutt fyrir reiði og gremju, að við ættum að njóta hvers dags sem okkur er gefin. Hún átti stóran þátt í lífi okkar og við erum þakklátir fyrir allan þann tíma sem hún gaf okkur og við fengum að njóta með henni.“

Smám saman hefur Sveindís verið að tengjast fjölskyldu Borghildar á seinni árum og í leiðinni hefur hún gert fleiri uppgötvanir um uppruna sinn. Þessari áhugaverðu för um fortíðina og upprunann er engan veginn lokið.

Leiði Borghildar.

Fundinn hálfbróðir

Eftir lát Borghildar fékk Sveindís vísbendingar um að hún ætti sennilega hálfbróður sem væri eldri en hún. „Þá kom yfir mig þessi tilfinning að ef ég ætti bróður á lífi vildi ég finna hann. Ég vissi að Borghildur hafði eignast dreng árið 1962 sem lést af slysförum þann 15. apríl árið 1963 en ég fæddist síðan á dánardegi þess drengs, sex árum síðar, 15. apríl 1969,“ segir Sveindís og tilfærir þar með enn eina magnaða tilviljunina í lífi hennar sem snertir fæðingardag hennar.

Eftir grúsk hennar sjálfrar og fólks sem aðstoðaði hana komst hún að því að maður að nafni Davíð væri hálfbróðir hennar. „Þetta var 17. janúar árið 2020. Ég hringdi í kjölfarið í Davíð, kynnti mig og sagði við hann að ef ég væri með réttar upplýsingar þá værum við sennilega hálfsystkini, sammæðra. Við hittumst skömmu síðar og höfum þróað með okkur gott samband síðustu fimm ár. Til gamans má geta að þegar ég kom heim og lét dætur mínar vita að ég væri búin að „finna“ bróður minn flettu þær honum strax upp á Facebook og í ljós kom að elsti sonur Davíðs hefur kennt öllum stelpunum okkar í Hvaleyrarskóla og fór í skólaferðalag með elstu dóttur okkar til Danmerkur! Auk þess kom síðar í ljós að Kristján, elsti sonur Davíðs, er giftur Ingu Rakel Einarsdóttur sem er dóttir Einars prests í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, þess sem sá um útför Borghildar. Einar prestur hefur jarðsungið „allar mæður mínar,“ þ.e. mömmu Ellen (sem ég ólst upp hjá), mömmu Borghildi (líffræðileg móðir) og Eddu tengdamömmu mína.“

Sveindís og Davíð fóru í DNA-próf hjá Íslenskri erfðgreiningu og fengu þar staðfest að þau væru hálfsystkini.

Mynd: DV/KSJ

Faðerni útilokað

Sveindís er skráð Hafsteinsdóttir á fæðingarvottorði sínu en Hafsteinn véfengdi faðernið á sínum tíma. Hún setti sig í samband við son hans og fóru þau einnig í DNA-próf hjá Íslenskri erfðagreiningu. Niðurstaðan þar var sú að þau eru ekki skyld.

Sunna Sveinsdóttir, mágkona Sveindísar, hefur sýnt ættarsögu hennar mikinn áhuga og á mikinn heiður af því að rétt faðerni kom í ljós með því að grúska í gegnum erlendan ættfræðigrunn, My Heritage, en Sveindís hafði sent DNA þangað, og svo Íslendingabók auk þess að lesa ótal minningargreinar. Enn og aftur var farið í skyldleikarannsókn og niðurstaðan staðfesti faðerni og við bættust fjögur hálfsystkini samfeðra. Sveindís er á þeirri vegferð núna að hún er búin að  rekja líffræðilegan uppruna sinn í móður- og föðurætt. „Það eru góð tengsl við Davíð, sammæðra bróður, og hans fjölskyldu og nú er ég að kynnast „nýju“ fjölskyldunni í föðurætt.“ Óhætt er að segja að þessi vegferð gengur vel.

„Við systkinin, samfeðra, hittumst  í fyrsta sinn heima hjá Unni systur, á sunnudegi fyrir bolludaginn og það var mjög ánægjulegur hittingur. Næsti hittingur var síðan heima hjá mér og þar hittumst við ásamt mökum. Það kvöld var líka mjög skemmtilegt og ekki hægt að segja annað en að allir hafi tekið þessu mjög vel. Alls ekki sjálfgefið að fólk vilji vera í sambandi. Við erum að þróa okkar samskiptatakt ennþá, allt frekar nýtt og þau líka svo mörg. Ég segi stundum að ég eigi fimm ára bróður og svo hafi ég eignast fjögur systkini til viðbótar í febrúar sem eru núna þá sjö mánaða, og svo á ég systur mínar, Obbu og Ástu, sem ég ólst upp með. Í heildina á ég því sjö systkini og er þakklát fyrir hvert og eitt þeirra.“

Sögu Sveindísar er ekki lokið hér á dv.is. Framhaldsviðtal mun birtast síðar í haust.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Jóhannes Valgeir látinn

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mætti með 19 árum yngri kærustuna upp á arminn

Mætti með 19 árum yngri kærustuna upp á arminn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti óræð skilaboðum nokkrum dögum fyrir sambandsslitin

Birti óræð skilaboðum nokkrum dögum fyrir sambandsslitin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rifjar upp þegar hún smurði samlokur fyrir vændiskonur Charlie Sheen

Rifjar upp þegar hún smurði samlokur fyrir vændiskonur Charlie Sheen
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristbjörg: „Að heyra í sprengjunum var óraunverulegt og skelfilegt“

Kristbjörg: „Að heyra í sprengjunum var óraunverulegt og skelfilegt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Heimspekingur fullyrðir að það sé vissulega líf eftir dauðann og rekur ferðalagið sem bíður okkar

Heimspekingur fullyrðir að það sé vissulega líf eftir dauðann og rekur ferðalagið sem bíður okkar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leikarinn fór í fitusog eftir að vændiskona særði tilfinningar hans með einu orði

Leikarinn fór í fitusog eftir að vændiskona særði tilfinningar hans með einu orði