Dæmdur nauðgari og morðingi í Suður-Afríku, Thabo Bester, hefur tapað dómsmáli gegn streymisveitunni Netflix þar sem hinn fyrrnefndi reyndi að stöðva frumsýningu á nýrri heimildarmynd um myrkraverk hans.
Lögmenn Besters og sambýliskonu hans, læknisins og samfélagsmiðlastjörnunnar Nandiphu Magudumana, héldu því fram að myndin, sem bera nafnið Beauty and the Bester, væri ærumeiðandi. Dómstóll í borginni Pretóríu hafnaði hins vegar kröfunni á föstudag og sagði að málið væri ekki brýnt. Skötuhjúin hefðu haft nægan tíma til að leggja fram kröfuna en hefðu „beðið fram á síðustu stundu“.
Dómarinn Sulet Potterill sagði í úrskurði sínum að sakamálið gegn þeim væri á allra vitorði og því væri ekki hægt að sjá að Netflix-þættirnir gætu skaðað rétt þeirra til réttlátrar málsmeðferðar.
Þrátt fyrir þetta úrskurðaði dómarinn að parið gæti síðar höfðað meiðyrðamál ef það teldi vegið að æru sinni í myndinni. Heimildarmyndin var frumsýnd sama dag og dómurinn féll.
Bester, sem öðlaðist viðurnefnið „Facebook-nauðgarinn“ fyrir að lokka fórnarlömb til sín í gegnum samfélagsmiðilinn, var árið 2012 dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir nauðgun og morð á fyrirsætunni Nomfundo Tyhulu. Áður hafði hann hlotið dóm fyrir nauðgun og frelsissviptingu tveggja annarra kvenna.
Frægastur er hann hins vegar fyrir flótta sinn úr háöryggisfangelsi árið 2022 þar sem hann sviðsetti eigin dauða. Eldsvoði gaus upp í fangaklefa hans og þegar illa brunnið lík fannst í klefanum töldu flestir að Bester væri allur.
Líkið reyndist hins vegar vera af öðrum manni. Í ringulreiðinni sem skapaðist við brunann hafði Bester náð að flýja og náði um talsvert skeið að lifa í felum í Jóhannesarborg undir dulnefni ásamt áðurnefndri sambýliskonu.
Parið var handtekið í Tansaníu í apríl 2023 og flutt til baka til Suður-Afríku. Þau sitja nú í gæsluvarðhaldi og bíða réttarhalda fyrir ýmis brot, þar á meðal ýmis svik, hindrun réttvísinnar og vanvirðingu líks.