Hæstiréttur hefur hafnað ósk Reykjavíkurborgar um áfrýjunarleyfi á máli sem borgin tapaði gegn konu sem slasaðist í Árbæjarlaug. Konan rann í hálku á leið í heita pottinn því snjóbræðslukerfi laugarinnar var bilað.
Konan varð fyrir slysinu þann 2. janúar árið 2022. Á leið sinni í heita pottinn rann hún, datt og slasaðist illa á fæti. Eiginmaður hennar sem var með henni var næstum floginn á hausinn líka þegar hann hjálpaði henni á fætur.
Kom í ljós að snjóbræðslukerfi laugarinnar var bilað og að starfsfólk hefði borið salt á með reglulegu millibili. En það hafði augljóslega ekki dugað.
Konan fór á sjúkrahús og kom þá í ljós að hún hafði orðið fyrir áverkum á ristarbeinum og liðböndum sem kröfðust aðgerðar bæklunarskurðlæknis.
Skaðabótaskylda Reykjavíkurborgar og tryggingarfélagsins Sjóvár-Almennra var viðurkennd með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. maí árið 2024. Var hún staðfest með dómi Landsréttar 19. júní síðastliðinn.
Reykjavíkurborg og Sjóvá-Almennar óskuðu eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar, meðal annars á þeim grunni að málið hefði fordæmisgildi varðandi hvernig skyldi halda gönguleiðum við útilaugar frostfríum. Eins og áður segir féllst Hæstiréttur ekki á það og hafnaði beiðninni.