Sorglegt atvik átti sér stað í Árbæjarlaug í byrjun árs 2022 þegar kona á besta aldri féll í hálku og slasaðist. Þetta gerðist er konan var að ganga í átt að heitum potti. Rann hún á ísingu sem var á gönguleið hennar, datt illa og slasaðist á fæti.
Þurfti konan að gangast undir aðgerðir á fætinum eftir slysið og í nóvember árið 2023 var plata og fjórar af skrúfum sem komið hafði verið fyrir í fyrri aðgerð fjarlægðar. Ljóst er að konan ber nokkurn skaða af slysinu til lengri tíma. Ennfremur segir orðrétt um áverkann í texta dómsins:
„Samkvæmt vottorði bæklunarlæknisins frá 31. október 2022 hafði stefnandi orðið fyrir frekar hvimleiðum ristaráverka sem þekktur væri fyrir að valda álagstengdum verkjum vegna þreytueinkenna við athafnir, svo sem langvarandi stöðu á hörðu undirlagi, göngur, hlaup og annað þungt álag hvort sem það tengdist vinnu eða frístundum. Fram kom að horfur stefnanda væru dálítið á reiki þar sem hún varð þunguð skömmu eftir slysið og því hefði hefðbundnu eftirliti ekki verið til að dreifa.“
Eiginmaður konunnar var með henni í för og var næstum dottinn sjálfur í hálkunni. Þau höfðu samband við starfsfólk eftir slysið og fengu upplýst að snjóbræðslukerfi sundstaðarins virkaði ekki sem skyldi þennan dag og bar því starsfólks salt á laugarbakkana með 45 mínútna millibili.
Þrátt fyrir þetta neitaði Reykjavíkurborg skaðabótaskyldu í málinu, taldi ljóst að slysið stafaði ekki af saknæmri framgöngu starfsfólks heldur væri á ábyrgð konunnar sem hefði átt að gæta að sér. Einnig var vísað til þess að skilti hefði verið á leiðinni þar sem varað er við hálku. Vettvangskönnun leiddi hins vegar í ljós að skiltið var lítt sýnilegt á gönguleið konunnar.
Það var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kvað upp dóm í málinu 10. maí, að Reykjavíkurborg og tryggingarfélag borgarinnar, Sjóvá-almennar, sé skaðabótaskylt gagnvart konunni.
Dóminn má lesa hér.