Forsætisráðherra Nepal hefur sagt af sér embætti eftir að minnst 19 létu lífið í gær og hundruð særðust í hörðum mótmælum gegn samfélagsmiðlabanni ríkisstjórnarinnar. Mótmælendurnir eru einkum á aldrinum 13-28 ára og segjast tilheyra svokallaðri Z-kynslóð. Áfram er mótmælt í dag og hafa nú minnst tveir til viðbótar látið lífið
Forsætisráðherrann KP Sharma Oli sagði í dag af sér vegna mótmælanna en áður höfðu meðal annars landbúnaðarráðherrann, heilbrigðisráðherrann, ungmenna- og íþróttaráðherrann og vatnsráðherrann stigið til hliðar og reiknað er með fleiri afsögnum eftir því sem líður á daginn.
Eftir að óeirðir brutust út í gær og til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu komu stjórnvöld staðbundnu útgöngubanni, einkum við þinghúsið og við forsetabústaðinn. Mótmælendur létu þó útgöngubannið ekki stöðva sig og áfram var mótmælt í dag, jafnvel þó að ríkisstjórnin hefði tilkynnt að samfélagsbanninu yrði aflétt. Loka þurfti alþjóðaflugvellinum í Kathmandu út af óeirðunum þar sem flugöryggi þótti ógnað.
Að sögn CNN er ekki hægt að kenna samfélagsmiðlabanninu einu um, en mótmælendur segja þjóðina komna með nóg af spilltum stjórnvöldum og bágu efnahagsátandi sem hafi þvingað unga fólkið til að leita tækifæra utan landsteinanna. Atvinnuleysi meðal ungmenna mældist á síðasta ári rúmlega 20 prósent.
Reiðin hefur einnig beinst að svokölluðum kúltúrbörnum (nepo babies), börnum stjórnmálamanna sem á samfélagsmiðlum hafa deilt myndum af lúxuslífsstíl sínum sem sýni skýrt hversu alvarleg misskipting auðs sé orðin í samfélaginu.