Popúlismi lifir á styttingum: flækjustigið er skorið af, óvissan er eyrnamerkt sem svik, heilli ævi er þjappað saman í slagorð. Formið er aðlaðandi og samfélagsmiðlar elska það. Popúlisminn umbunar þeim sem tala hratt og af sannfæringu og þegar formið ræður verður málfræðin að valdatæki: vel samsett setning hljómar eins og rök, sérstaklega í eyrum þeirra sem eru þreyttir.
Mörg hver erum við þreytt, en áreitið er endalaust og upplýsingarnar eru eins og foss sem heldur okkur undir yfirborðinu. Þegar vel klætt fólk matreiðir „staðreyndir“ með einföldum og fljótlegum hætti kann það að framkalla hjá okkur létti. Loksins einhver sem nennir að útskýra þetta fyrir mér eins og ég sé fimm ára. „ChatGPT lestu þessa grein og skýrðu hana fyrir mér í 100 orðum.“ Meira að segja „Lögmennið“ á Fons Juris gerir þetta fyrir hámenntaða lögmenn sem hafa ekki tíma til þess að þræða sig í gegnum langa og þykka lagatexta.
Það er freistandi að falla fyrir því. Hraði hlýtur að gefa til kynna nákvæmni. Það sem er einfalt hlýtur að vera áreiðanlegt. Það sem er flókið hlýtur að vera vafasamt.
En réttarríki og mannréttindi byggjast ekki á hraða og einföldun; hagsmunirnir eru í hámarki og því eru vinnubrögðin hæg, endurtekin og sífellt í endurskoðun. Sem betur fer. Við horfumst í augu við samfélagið og manninn eins og hann er, ekki eins og núverandi kerfi finnst þægilegast eða fljótlegast að hann sé.
Það eru til menn úti í heimi sem boða hallarbyltingar í 140 orðum. Þegar kerfin virðast handónýt og allt of flókin kann að virðast rosalega þægilegt að fá sveðju inn í umræðuna sem klýfur hana í tvennt. Við og hinir. Ykkar hagsmunir og okkar hagsmunir. En það felst engin stefna í 140 orðum. Í besta falli er þetta stíll.
Lagasetning og pólitísk umræða eiga að þjóna raunverulegu lífi fólks. Líf okkar eru alls konar. Það er vanhugsað að ætla að smætta eitthvað sem okkur þykir framandi, niður í „hugmyndafræði.“
Popúlisminn gengur út á að lofa einfölduðum kerfum en í raun skilar hann samfélagi sem verður dýrt og þungt í rekstri. Hann elur af sér endalaus menningarstríð, dregur úr trúverðugleika stofnana og skilar sér í verri stefnumótun. Áralöng þróun verður að engu þegar hægt er að sannfæra nógu stóran hóp um að eitthvað skipti ekki máli einfaldlega vegna þess að það er „ósýnilegt.“ Hér má nefna sem dæmi nýlegar vendingar í Bandaríkjunum þar sem væntanlegur niðurskurður kann að jafna við jörðu rannsóknir á krabbameinslækningum fyrir börn, mistök sem munu vafalítið kosta börn lífið á komandi áratugum. Ekki bara í Bandaríkjunum heldur um heim allan. Sem betur fer eru börn með krabbamein ekki risastór hópur, hlutfallslega. Samt greinast 400.000 börn á ári, á heimsvísu, samkvæmt gögnum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Ég býst við því að ansi margir geti farið í gegnum lífið án þess að þurfa mikið að umgangast börn með krabbamein.
Það þýðir ekki að börn fái ekki krabbamein. Það dregur ekki úr alvarleikanum.
Þetta er val. Við getum hægt á okkur og krafist þess að fólk vísi í heimildir. Við getum gert þá kröfu að viðurkenndum aðferðum sé beitt og að fólk færi sannanir fyrir máli sínu. Við getum tekið afstöðu gegn frasapólitík og beðið um vandlega útfærðar lausnir.
Þannig missir popúlíska formið aðdráttaraflið.
Heimildir:
https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/cancer-in-children
https://www.washingtonpost.com/politics/2025/03/28/trump-administration-science-research-cuts/
https://www.nytimes.com/2025/08/28/well/pediatric-brain-cancer-trial-group.html