Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hyggst loka fiskvinnslunni Leo Seafood og segja upp 50 starfsmönnum í þeim aðgerðum. Um er að ræða viðbragð við aukinni skattheimtu ríkisins samkvæmt yfirlýsingu á heimasíðu fyrirtækisins. Vinnslustöðin keypti fiskvinnsluna í lok árs 2022.
„Undanfarnar vikur hafa stjórn og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar unnið að endurskoðun á rekstri fyrirtækisins í leit að hagræðingu. Er það óumflýjanleg aðgerð vegna aukinnar skattheimtu ríkisins sem er áætluð 850 milljónir á ári fyrir samstæðu Vinnslustöðvarinnar þegar hún verður að fullu komin til framkvæmda. Eftir hækkunina eru veiðigjöld Vinnslustöðvarinnar áætluð 1.450 milljónir króna á ári.
Fyrsta skrefið var að stöðva allar fyrirhugaðar framkvæmdir og kaup á nýjum skipum. Það eitt og sér dugir ekki til og því þarf að grípa til fleiri aðgerða. Stjórn Vinnslustöðvarinnar hefur því ákveðið að loka fiskvinnslunni Leo Seafood. Það er erfið en nauðsynleg ákvörðun. Við breytingarnar þarf félagið að grípa til uppsagna 50 starfsmanna,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá er fullyrt að fyrir utan hækkun veiðigjalda hafa gríðarlegar hækkanir á launakostnaði og sterk króna gert rekstur Leo Seafood erfiðan.
„Í tvö ár hefur verið unnið að hagræðingu sem hefur borið árangur en Leo Seafood er ennþá í taprekstri. Í kjölfar lokunar á Leo Seafood mun hluti þess fiskjar sem unninn var þar verða unninn í saltfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar en jafnframt verður sala á markaði aukin.
Áhrifin verða víðtæk og má benda á að launakostnaður Leo Seafood nam á síðasta ári 550 milljónum króna og verða ríkið og Vestmannaeyjabær af 122 milljónum við þessa aðgerð í formi útsvars og skatta.“
Þá er bent á að forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar hafi ítrekað varað við þeim afleiðingum sem áðurnefndar aðgerðir ríkisins myndu hafa í för með sér.
„Nægir þar að nefna umsögn Vinnslustöðvarinnar til atvinnuveganefndar Alþingis sem og opinn fund sem haldinn var í Vestmannaeyjum um hækkun veiðigjalda og afleiðingar þess á samfélagið í Eyjum. Fleiri aðgerðir eru til skoðunar hjá Vinnslustöðinni til að bregðast við ákvörðun stjórnvalda um hækkun veiðigjalda.“
Þá er haft eftir að forstjóra fyrirtækisins, Sigurgeiri B. Kristgeirssyni, að það sé erfitt að ráðast í sársaukafullar aðgerðir sem þessa.
„Við verðum að velta við hverjum steini í rekstrinum. Ég minni á að á síðasta ári var Vinnslustöðin rekin með tapi og nú bætist við stóraukin skattheimta. Því eru aðgerðir sem þessar óhjákvæmilegar. Áætlaður sparnaður af lokun Leo Seafood nemur um 400 milljónum króna.
Ég vil koma á framfæri þökkum til starfsfólks og stjórnenda Leo Seafood sem hafa staðið sig vel í sínum störfum fyrir félagið og óska þeim velfarnaðar.“