Á bak við luktar dyr á útfararstofunni fundust um tuttugu rotnandi lík, en umrædd útfararstofa var í eigu héraðslæknis á svæðinu.
Í frétt AP kemur fram að eftirlitsmennirnir hafi fundið „sterka rotnunarlykt“ þegar þeir gengu inn á útfararstofuna á miðvikudag.
Augu eftirlitsmannanna beindust að ákveðnu herbergi á útfararstofunni og mun Brian Cotter, eigandi útfararstofunnar, hafa beðið eftirlitsmennina um að fara alls ekki þangað inn. Það gerðu þeir samt og blasti ófögur sjón við þeim.
Í umfjöllun AP kemur fram að víða sé pottur brotinn í Colorado þegar kemur að eftirliti með útfararstofum. Hafa þær fengið að starfa án reglubundinna skoðana eða skilyrða um menntun rekstraraðila. Hefur það leitt til margskonar tilvika eins og fjallað er um hér að framan.
Þá er skemmst að minnast annars máls í ríkinu þar sem um 200 rotnandi lík fundust geymd við stofuhita í Penrose í Colorado.
Uppgötvunin í vikunni kemur í kjölfar nýrra reglna um eftirlit með útfararstofum sem tóku gildi fyrir skemmstu. Áður en reglunum var breytt gátu eftirlitsmenn aðeins gert úttektir á útfararstofum ef formlegar kvartanir höfðu verið lagðar fram.
Í frétt AP kemur fram að sum líkin á útfararstofunni hefðu beðið eftir brennslu í um fimmtán ár og í einhverjum tilfellum hafi aðstandendum verið afhent aska af öðrum einstaklingum.