Drengurinn og níu vinir hans mæltu sér mót við manninn, hinn 37 ára gamla Zain Alnoor Merchant, í gegnum Snapchat. Taldi maðurinn að hann væri að hitta ungmenni í kynferðislegum tilgangi.
Hinn grunaði mætti á bifreið sinni og ákvað drengurinn að fara inn í bifreið mannsins á meðan vinir hans tóku upp myndbönd. Ekki vildi betur til en svo að Zain ók á brott um leið og pilturinn steig inn í bílinn hans.
Drengnum tókst að flýja út úr bifreiðinni á rauðu ljósi skammt frá og hringdi hann á neyðarlínuna. Lögregla var fljót að finna bifreið Zains, en hann neitaði að stoppa og hófst eftirför í kjölfarið. Lögregluþyrla var kölluð og var Zain handtekinn nokkru síðar þetta sama kvöld.
Zain hefur verið kærður fyrir mannrán og rof á skilorði en hann var á sakaskrá og mátti ekki setja sig í samband við einstaklinga undir lögaldri.
Lögregluyfirvöld í Airdrie hafa varað ungmenni við að beita tálbeituaðgerðum sem þessum, en þær virðast hafa færst í vöxt að undanförnu.
„Ungmenni geta verið að setja sig í mjög hættulegar aðstæður og hvetjum við engan til að apa þetta eftir,“ segir Christopher Hrynyk, fulltrúi lögreglu á svæðinu.