Rúmlega tvítugur leikskólastarfsmaður var nýlega handtekinn, grunaður um kynferðisbrot gegn ungu barni. Vísir greinir frá þessu.
Samkvæmt heimildum Vísis starfar hinn grunaði í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og barnið sem hann er grunaður um að hafa brotið á er á leikskólaladri. Hins vegar liggur ekki fyrir hvort barnið sem í hlut á hafi verið í umönnun starfsmannsins.
Lögregla hefur krafist gæsluvarðhalds yfir manninum en von er á tilkynningu lögreglu um málið síðar í dag.
Lögregla hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur fram að maðurinn hafi verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Tilkynning um málið barst lögreglu á þriðjudag og var maðurinn handtekinn í kjölfarið:
„Karlmaður á þrítugsaldri var í fyrradag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 20. ágúst, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á kynferðisbroti í umdæminu.
Tilkynning um málið barst lögreglu á þriðjudag og var maðurinn handtekinn í kjölfarið.
Rannsókn lögreglunnar er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.“