Miklar skemmdir hafa orðið á náttúrunni eftir að þungir bílar byrjuðu að keyra að eldgosinu að Reykjanesi. Segja má að slóðinn sé orðinn að einu drullusvaði.
Í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit birtir netverji myndir af slóðanum upp að eldgosinu á Reykjanesi. Segja má að slóðinn sé orðinn eitt stórt drullusvað og stórt sár í landslaginu.
Segist hann hafa farið margoft að skoða eldgosin sem hófust á Reykjanesi fyrir nokkrum árum síðan. Hann segist sjá mikla breytingu með tilkomu rútuferða að gosinu.
„Þessir Mercedes Sprinter ofurjeppar sem eru í eigu Activity Iceland og eru reknir af Islandia. Þeir skilja eftir sig svo hræðilegt drullusvað,“ segir maðurinn. „Ég átta mig á því að þetta land er í einkaeigu og að landeigendur hljóti að fá einhverjar bætur fyrir þetta en ég get ekki skilið hvernig það er í lagi að svona stórir bílar fari stanslaust fram og til baka og eyðileggi landið.“
Spyr hann hvort þetta sé í lagi. Hvort það ætti einfaldlega að banna þennan akstur til og frá eldgosinu.
„Þeim er alveg sama um hvað fólki finnst. Þetta snýst allt um peninga,“ segir einn. „Það er mjög pirrandi að þessir bílar komi stanslaust og gangandi fólk þurfi að fara af slóðanum. Einu sinni var mjög mikil rigning og við þurftum að hafa áhyggjur af bílunum og drullunni sem þeir búa til þannig að við gengum á grasinu þar sem voru holur sem við vorum næstum búin að detta ofan í.“
Annar segist einnig vera sammála. „Þessi stóri slóði (sem er eyðilagður eins og margir aðrir hlutir á Íslandi) er bara afsökun til að búa til peninga,“ segir hann. „Alveg sama um mosann eða náttúruna.“