fbpx
Þriðjudagur 29.júlí 2025
Fréttir

Foreldrar Sturlu Þórs minnast flugslyssins í Skerjafirði – „Því stundum þarf ekki nema eina ranga ákvörðun til að allt breytist“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 28. júlí 2025 17:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Foreldrar pilts sem lét lífið í kjölfar flugslyssins í Skerjafirði 7. ágúst árið 2000, minnast harmleiksins í tilefni verslunarmannahelgarinnar sem er framundan. Leiguflugvél sem var í farþegaflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkurflugvallar með gesti af þjóðhátíð hrapaði þá í sjóinn í Skerjafirði.

Þrír létust í slysinu en þrjú slösuðust lífshættulega og voru látin innan árs. Eitt þeirra var Sturla Þór Friðriksson, sem lést af áverkum sínum þann 1. janúar árið 2001. Foreldrar hans, Kristín Dýrfjörð og Friðrik Þór Guðmunsson, segja í aðsendri grein á Vísir.is í dag:

„Í ár eru liðin tuttugu og fimm ár frá flugslysinu hörmulega í Skerjafirði við lok Verslunarmannahelgar. Margir Íslendingar tengja þessa helgi við gleði og útivist, fjölskyldu og vináttu. Í slysinu létust sex manneskjur, þar á meðal 17 ára sonur okkar. Engin orð geta lýst því tómi sem varð eftir, eða þeirri staðreynd að líf okkar allra breyttist um leið og vélin fór í sjóinn.

Minningin um þetta augnablik, og þær afleiðingar sem það hafði, hafa aldrei yfirgefið okkur. Slysið breytti ekki aðeins okkar fjölskyldu heldur einnig sýn á lífið, tímann og hvað raunverulega skiptir máli.“

Þau Friðrik og Kristín segja að það sé gott að fólk gleðjist um verslunarmannahelgina og njóti lífsins í góðum félagsskap. En um leið minna þau á ábyrgðina sem fylgir því að vera á ferðalagi, að gæta sín og setjast alsgáð undir stýri, til dæmis. „Því stundum þarf ekki nema eina ranga ákvörðun til að allt breytist.“

Þau segja ennfremur:

„Þetta er ekki skrifað til að vekja angist, heldur til að hvetja til ígrundunar og varkárni. Við berum öll ábyrgð, ekki bara á eigin öryggi, heldur líka þeirra sem við elskum og þeirra sem við mætum á leiðinni.

Lífið er viðkvæmt. Það er líka dýrmætt. Megum við öll muna það þessa helgi og alla daga.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ósáttur MBA-nemi fór í stríð við HÍ – „Varstu vísvitandi að ljúga því að mér“

Ósáttur MBA-nemi fór í stríð við HÍ – „Varstu vísvitandi að ljúga því að mér“
Fréttir
Í gær

Trump kallar eftir að Beyonce verði ákærð

Trump kallar eftir að Beyonce verði ákærð