Talsverð umræða hefur skapast um meinta golfferð Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, á hægri væng fjölmiðla. Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi hlaðvarpsþáttarins Þjóðmála, reið á vaðið og birti skjáskot þar sem sannarlega mátti sjá að ráðherrann var skráð með rástíma í golfi kl.13.30 í gær, miðvikudaginn 3.júlí, á ótilgreindum golfvelli ásamt Ragnhildi Sverrisdóttur, eiginkonu sinni, og þriðja manni. Ýjaði Gísli Freyr að því að ráðherrann slæi slöku við í þeim málþófsslag sem nú geisar á Alþingi.
„Nú veit ég ekki hvernig gekk í þinginu í dag við að reyna að hækka skatta á sjávarútveginn. En vonandi náði sjávarútvegsráðherrann að lækka forgjöfina í dag. Við viljum ekki að dagvinnan trufli þann feril,“ skrifaði Gísli Freyr.
Nú veit ég ekki hvernig gekk í þinginu í dag við að reyna að hækka skatta á sjávarútveginn. En vonandi náði sjávarútvegsráðherrann að lækka forgjöfina í dag. Við viljum ekki að dagvinnan trufli þann feril. pic.twitter.com/nhyfPBxZp6
— Gisli F. Valdorsson (@gislivaldorsson) July 2, 2025
Aðrir miðlar á sömu línu gripu golfkúluna á lofti. Pistlahöfundur Viðskiptablaðsins, undir liðnum Huginn & Muninn, skaut fast á ráðherrann. „En Hanna Katrín er áhyggjulaus. Þó svo einhverjir á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi eða jafnvel Suðurlandi missi vinnunna vegna skattagleðinnar þá fer hún í golf,“ skrifaði pistlahöfundurinn og reiddi hátt til höggs.
Sama enduróm birtist síðan í pistli Andrésar Magnússonar, vopnabróður Gísla Freys, í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann fór yfir stöðuna við Austurvöll. „Flestir sjálfsagt með hugann annars staðar, eins og raunar atvinnuvegaráðherrann Hanna Katrín Friðriksson, sem fór frekar með fjölskyldunni í golf en að koma í þingið,“ skrifaði Andrés.
Ragnhildur, eiginkona Hönnu Katrínar, vippaði golfkúlunni hins vegar snyrtilega tilbaka í Þjóðmála-glompuna og benti á að skráning á rástíma væri ekki það sama og spila hring, áætlanir eigi það til að breytast.
„Það er ekki hið sama að skrá sig í golf og ná að mæta. Það varð ekkert úr golfi hjá okkur Hönnu Katrínu í dag. Hún hafði öðru að sinna. Kannski komumst við í fyrramálið. Ég væri kát með það, enda sjálf í fríi, eins og stóð reyndar til hjá okkur báðum,“ skrifað Ragnhildur í athugasemd við pistil Viðskiptablaðsins í gær en svarið skilaði sér greinilega ekki upp í Hádegismóa fyrir blað dagsins.
Í umfjöllun Vísis sem birtist nú fyrir stundu kemur hins vegar fram að Hanna Katrín og Ragnhildur hafi náð að skella sér í golf núna í morgunsárið í Borgarnesi. Hún var því ekki viðstödd þegar þingfundur hófst kl.10 í morgun þar sem til umræðu er fjármálaáætlun, síðari umræða.