Tónlistamaðurinn Sean Combs, betur þekktur sem P. Diddy, var nú fyrir stundu sakfelldur í tveimur ákærulið af þeim fimm sem hann var ákærður fyrir. Tónlistarmaðurinn var sakfelldur í tveimur liðum sem sneru að því að hann hefði staðið fyrir flutningi fólks í tengslum við vændi en sýknaður í alvarlegustu ákæruliðunum sem sneru til að mynda að skipulagðri glæpastarfsemi, mansali og fjárkúgun.
Þetta var niðurstaða kviðdóms en nú mun dómari úrskurða um þá refsingu sem Diddy hlýtur. Á hann yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi sem verður að teljast nokkuð vel sloppið enda hefði hann hlotið lífstíðardóm hefði hann verið sakfelldur fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Búist er við að talsvert vægari dómur sé yfirvofandi samkvæmt erlendum miðlum.
Tónlistarmanninum var sýnilega mjög létt við að heyra niðurstöðu kviðdómsins og fagnaði henni með fjölskyldu sinni í dómssal.
Málið gegn Diddy hefur verið á allra vörum frá því að hann var handtekinn í september í fyrra. Réttarhöldin hófust í byrjun maí og hafa vakið heimsathygli enda hulunni varpað af ógeðfelldri hegðun tónlistarmannsins í gegnum árin. Diddy hefur ávallt neitað sök en athygli vakti að hann kaus að gefa ekki skýrslu fyrir dómi.
Ljóst er þó að Diddy mun samhliða afplánunun sinni vera reglulegur gestur í dómssölum næstu árin en tugir einkamála hafa verið höfðum gegn honum, meðal annars um kynferðislegt ofbeldi gegn konum, körlum og börnum.